Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:44]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að við eigum að hætta þessari vitleysu. En ég veit ekki hvort vitleysan sé sú að taka á móti umsögnum. Við ættum kannski að fara að hlusta á umsagnirnar, það sé það sem við ættum að fara að gera. Það skiptir máli fyrir okkur sem sitjum hérna í einhverri búblu á þingi að hlusta á það sem er að gerast og gerjast úti í samfélaginu. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að fá umsagnir. Við erum að taka á móti gestum í nefndum sem gefa okkur örlitla sýn í það sem þeir eru að sýsla með og þá hagsmuni sem þeir eru að berjast fyrir og þeir eru að verja. Oft á tíðum er þetta fólk hreinlega að vinna í sjálfboðavinnu til að styðja við og standa með hópum sem eiga erfitt um vik og nægir bara að nefna Öryrkjabandalagið. Það skiptir máli að við hlustum. Það skiptir máli að sveitarfélögin fái að eiga samtal við alþingismenn. Það skiptir verulegu máli. En ég heyrði það oft þegar ég var sveitarstjórnarmaður og mínir félagar fengu að hitta nefndir Alþingis að þeim fannst þetta harla lítilfjörlegt. Þau fengu að sitja þarna inni í nokkrar mínútur, telja upp atriðin sem þau töldu að skiptu máli, svo bara búið, bless. Við þurfum kannski að gera aðeins meira úr þessu samtali við samfélagið okkar og þá gesti sem við erum að taka á móti þannig að við séum að vinna frekar með þetta samráð og það sem hv. þingmaður nefndi hér. Samráð verður alltaf að eiga sér stað ef við ætlum að ná áfram í þessu. Við eigum að taka á móti gestum en við eigum að hætta þessari vitleysu.