Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta viðbragðsleysi forseta kemur mér líka á ákveðinn hátt á óvart. Forseti hafði svo sem ekki lýst einhverjum áætlunum um að halda okkur hérna langt fram á nótt á þessum degi, ekki svo að ég muni til. Það liggur enda fyrir að umræða um fjárlög tekur sinn tíma og þetta er ekki einhver methafi í lengd umræðna um fjárlög, get ég sagt hv. þingmönnum. Það er því undarlegt að hér sé látið eins og við séum á lokadögum þingsins fyrir jól, það er ekki svo; að við séum kannski bara rétt að reyna að klára lokametrana. Það er neyðarráðstöfun, myndi ég halda, til að reyna að klára fyrir jól, að halda þinginu og þingmönnum langt fram á nótt til þess að allir geti komist aðeins fyrr heim. En það eru þá lokadagarnir.

Virðulegi forseti. Ég kalla eftir svörum frá forseta.