Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Í byrjun ræðu sinnar fór hann aðeins yfir verðbólguna og hvernig þessi ríkisstjórn virðist vera að kalla eftir meiri verðbólgu, meira veseni og lýsti því dálítið hvernig eigi að bregðast við efnahagssveiflum. Ég hef verið að klóra mér aðeins í hausnum yfir því að undanförnu. Við erum að setja hér fullt af lögum; lög um réttindi og skyldur opinberra aðila, réttindi borgara og þess háttar. Rekstur á þeirri þjónustu, dómsþjónustu, löggæslu og ýmislegt svoleiðis, kostar í rauninni bara ákveðið mikið. Við erum að setja það í hendurnar á faglegri stjórnsýslu hvernig eigi að framfylgja lögunum og hvað það kostar að framfylgja lögunum. En einhverra hluta vegna fáum við fjárlög í haust sem reikna með miklu minni kostnaði vegna reksturs þessara lögbundnu verkefna. Það virðist þá vera pólitísk ákvörðun að skipta sér af kostnaðarmati faglegrar stjórnsýslu um það hvað þarf til að reka þá þjónustu sem við höfum samþykkt eigi að veita samkvæmt lögum. Útgjöld til ríkisins eru aðallega miðuð við þau lög sem við setjum og eru nokkuð óbreytanleg. Tekjurnar sveiflast svolítið eftir efnahagssveiflunni en svo þarf einmitt að stilla þá sveiflu til með ýmiss konar tekjuöflun til að eiga fyrir þessum lögbundnu verkefnum, í staðinn fyrir að láta útgjöldin sveiflast fram og til baka og í raun og veru elta alltaf (Forseti hringir.) hagsveifluna með skattkerfisbreytingum og ýmsu svoleiðis. Ég er að pæla í því hvort við séum ekki í rauninni (Forseti hringir.) þetta stóra olíuskip sem tekur litlum breytingum og að í staðinn fyrir að reyna alltaf að láta það breytast (Forseti hringir.) og taka nýja stefnu þá ættum við að vera aðeins staðfastari í útgjöldum ríkisins.