Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða og góða ræðu. Ég er, kannski eins og hv. þingmaður, að reyna að átta mig á hvert markmiðið er með þessum fjárlögum, hvaða áhrifum og hvaða markmiðum verið er að reyna að ná með þeim. Það er hægt að lýsa alls konar yfir en ef við horfum á hvað fjárlögin gera í raun og veru, hver áhrif þess eru í raun og veru þá stend ég svolítið á gati varðandi það hver tilgangurinn er. Eins og hv. þingmaður benti svo skemmtilega á í sinni ræðu þá mætti halda að þau væru að reyna að búa til meiri verðbólgu. Ég rak augun í kafla í fjárlagafrumvarpinu sem snýr að mati á jafnréttisáhrifum, en þar stendur, með leyfi forseta: „Ekki hefur farið fram ítarleg greining á jafnréttisáhrifum frumvarpsins.“ Ég er kannski að vísa í bandorminn, ég veit það ekki. Það kemur a.m.k. fram hérna:

„Þó má leiða að því líkur að einhverjar tillögur þess geti haft ólík áhrif á karla og konur enda eru konur að meðaltali með lægri tekjur en karlar. Samkvæmt álagningarskrá ársins 2021 voru 56% kvenna í neðri helmingi tekjudreifingarinnar og konur eru aðeins 29% einstaklinga í efstu tekjutíundinni. Hækkun krónutöluskatta og annarra skatta og gjalda kemur því að meðaltali hlutfallslega verr niður á konum en körlum.“

Einmitt, þetta hlýtur að vera bandormurinn. En ég bendi á þetta af því að þetta helst í hendur, fjárlögin og svo bandormurinn, sem við erum að fara að taka fyrir einhvern tímann í næstu viku, held ég. Markmiðið er heldur ekki að auka jafnrétti. Þá velti ég bara fyrir mér: Hefur hv. þingmaður áttað sig á því nákvæmlega hvert markmiðið er með þessum fjárlögum?