Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:39]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er auðvitað hárrétt hjá hv. þingmanni. Þetta er svo athyglisvert með þessa hækkun krónutölugjaldanna, þessa ofsahækkun krónutölugjaldanna: Í staðinn fyrir að hækka þau um 2,5% í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans þá er farin sú leið einmitt á þessum tíma þegar verðbólgan er svona mikil og greiðslubyrðin er að hækka hjá heimilum og fjöldi fólks er í vandræðum, metfjöldi öryrkja er að sækja um fjárhagsaðstoð til umboðsmanns skuldara og maður gæti tekið fleiri dæmi, einmitt á þessum tíma er valið að fara þessa leið til að ná fram aðhaldi, að hækka þessi krónutölugjöld sem leggjast þyngst á fólk í lægstu tekjuhópunum, sem leggjast því þyngra á fólk eftir því sem það hefur lægri tekjur. Þetta er ekki bara ósanngjarnt gagnvart þessu fólki heldur er þetta líka afskaplega óskilvirk leið til að vinna gegn þenslu og vinna gegn verðbólgu. Jú, vissulega dregur þetta einhver umsvif og kaupmátt út úr hagkerfinu, en þar sem þetta gerir til skamms tíma er að þetta ýtir upp vísitölu neysluverðs og það er meira að segja viðurkennt í greinargerð þessa frumvarps að hún muni hækka um 0,2% út af þessari hækkun umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Hitt sem hv. þingmaður kom inn á, sem er það að það er alltaf verið að vitna til einhverrar fornrar frægðar sem afsökun fyrir því að gera ekki eitthvað núna eða að gera eitthvað mjög óskynsamlegt núna, þá er hin aðferðin, sem er líka notuð, sú að segja: Nei, við getum ekki gert þetta vegna þess að það er mjög merkilegur starfshópur að störfum og heildarendurskoðun í gangi. Þess vegna er því miður ekki hægt að gera aðeins betur við fólkið sem hefur það verst, gera aðeins betur við öryrkja og tekjulægstu eldri borgarana því að það er heildarendurskoðun í gangi. Það er ýmsum brögðum beitt.