Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er einn nefndarmaður í fjárlaganefnd sem á eftir að halda fyrstu ræðu sína. Allir aðrir hafa haldið a.m.k. eina ræðu. Þetta er það mál á hverju þingi, það eru annars vegar fjármálaáætlun og svo fjárlögin, sem fjárlaganefnd glímir við, eitt stórt mál fyrir jól. Fjáraukalögin koma líka aðeins inn í þetta. Margar aðrar nefndir eru með fullt af málum og það er mjög eðlilegt að allir nefndarmenn fjárlaganefndar taki þátt í umræðunni af því að hver nefndarmaður er búinn að leggja mjög mikla vinnu í þetta mál. En ef umræðan klárast hérna í nótt er umræðan búin og viðkomandi nefndarmaður kemst þá ekki að í umræðunni, sem ég veit að hefur gerst áður meira að segja og hún var ekki ánægð með það og tjáði mér það einmitt hérna frammi á göngum að hún hlakkaði til að gagnrýna nefndarálit mitt, sérstaklega dæmisöguna í byrjun sem ég hvet aðra til að lesa. (Forseti hringir.) Ég myndi hvetja til þess að forseti alla vega svari því hvenær eigi að klára þingfund og hvernig þessi nefndarmaður fjárlaganefndar komist á mælendaskrá í 2. umr.