Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:52]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það sem kannski truflar mest við það að umræðunni sé haldið svona langt fram eftir þegar við eigum nokkur eftir að tala, vera með aðalnúmerið okkar í þessari umræðu, er að maður fær svolítið á tilfinninguna að umræðan sé til málamynda, sérstaklega þegar stefnir í að það eigi einhvern veginn að klára umræðuna, alveg sama hversu langt inn í nóttina það fer. Það er ekki mikil virðing fyrir því sem fólk hefur að segja í ræðum sínum. Ég segi það sama, hér er fólk að taka sig af mælendaskrá, eðlilega, vegna þess að það er langt liðið á nóttina. Ef til stendur að klára umræðuna hér klukkan fjögur í nótt eða eitthvað svoleiðis þá leiðir það til þess að fólk sem treystir sér ekki til að standa hérna og ræða fjárlög fram á rauða nótt missir af tækifærinu. Það fær ekki að koma sínum orðum að. Mig langar því að beina þeirri viðbótarspurningu til forseta hvort hann líti svo á að þessi umræða hér sé til málamynda eða hvort við séum raunverulega hérna til þess að eiga samtal um þetta mikilvæga mál.