Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[01:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég þakka forseta kærlega fyrir svarið, að við klárum bara mælendaskrá, þegar klukkan er rétt að verða tvö. Nú erum við að tala um ansi viðamikið mál. Ég gleymdi að taka með mér fjárlögin til að sýna hversu stór bókin er, langaði að láta hana detta í gólfið til að heyra gott hljóð en sleppum því í bili. Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson þarf ekki að koma með hana, en takk samt. Forseti segir að við klárum umræðuna á þessum tíma þegar það eru alla vega tveir þingmenn sem eiga eftir að halda sína fyrstu ræðu í málinu. Þetta er ansi stórt og viðamikið rit sem þarf að tala um enda er ræðutími sjálfkrafa tvöfaldur í þessari umræðu. Tveir þingmenn á mælendaskrá sem eiga eftir að halda sína fyrstu ræðu, ræðutíminn er þá 40 mínútur, getur verið það. Þegar forseti segir: Klárum bara umræðuna, þá kemur ákveðinn mótþrói upp í mér og ég segi bara, með leyfi forseta: Ég tek áskoruninni eða, eins og það er stundum orðað: „Challenge accepted“.