Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[01:44]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég naut þeirra forréttinda að geta farið með ræðu mína fyrr í dag, ég var fyrst á mælendaskrá. Það fór vissulega enginn stjórnarliði í andsvör við mig en ég náði alla vega að hlusta á allar hinar ræðurnar sem voru á eftir mér og þar komu áhugaverðir punktar fram varðandi fjárlögin fyrir 2023. En eins og ég er búin að segja hér í allt kvöld, forseti, þá eru það forréttindi að fá að taka þátt í umræðunni um fjárlög fyrir árið 2023 því ekki erum við í fjárlaganefnd nema hv. þm. Björn Leví Gunnarsson og við þingmenn sem erum ekki í fjárlaganefnd fáum mjög lítið að segja um fjárlögin nema í þessari umræðu, í 1., 2. og 3. umr., og þá sérstaklega í 2. umr. sem er mikilvægasta umræðan. Það er hægt að taka hluti til greina sem koma fram í þeirri umræðu og því finnst mér rosalega miður að hún sé tekin í skjóli nætur. Ég er nokkuð viss um að metnaðurinn hjá hv. stjórnarliðum (Forseti hringir.) sé ekki það mikill að þau fari inn á alþingisvefinn í fyrramálið til að kíkja á það sem hér hefur verið sagt í kvöld.