Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[02:51]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Við erum hér að ræða fjárlögin fyrir næsta ár, eitt mikilvægasta málið sem við ræðum hér á þinginu ef ekki það mikilvægasta, eins og mér hefur orðið tíðrætt um hér á síðustu mínútum. Fjárlögin endurspegla stefnu ríkisstjórnarinnar, hina raunverulegu stefnu hennar. Það er nefnilega þannig að stjórnarflokkarnir geta látið ýmislegt flakka. Þeir geta haft sína stefnu í kosningabaráttu, geta jafnvel gefið út yfirlýsingar í stjórnarsáttmála og annað en það er við birtingu fjárlagafrumvarpsins sem sýnt er á spilin. Það er það sem við erum að horfa á hér og erum að ræða. Það er auðvitað af ýmsu að taka enda tekur þessi doðrantur á öllu sem við gerum og öllu því sem gerist í þessu samfélagi þar sem fjárlögin fjalla bæði um það hvernig við öflum tekna fyrir ríkissjóð og hvernig við útdeilum þeim, hvernig við deilum þeim úr þeim sameiginlega sjóði sem á að vera til staðar til að vinna að hagsmunum okkar allra.

Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem mér finnst kannski skipta einna mestu máli í þessari umræðu. Það getur verið að ég þurfi aðeins að vaða úr einu í annað því að þrátt fyrir að við höfum lengdan ræðutíma í þessu máli þá er svo margt að segja. Það er margt að ræða. Það væri í raun hægt að hafa langa ræðu um hvern og einn einasta þátt, næstum því hverja einustu blaðsíðu. Það þarf einhvern veginn aðhalda því í skefjum. Ég ætla því aðeins að fá að tæpa á því sem ég tel mikilvægast.

Mig langar að byrja á að taka undir með nokkrum hv. þingmönnum sem hafa haldið ræður hér í dag og rætt það hvernig ríkisstjórnin er eina ferðina enn að sýna á spilin þegar kemur að málefnum öryrkja sérstaklega og annars fólks hér á landi sem er fast í fátæktargildrum sem lagðar eru fyrir fólk í því kerfi sem við höfum byggt upp. Það er eins og sú umræða sé einhvern veginn sagan endalausa. Hún er alltaf sú sama. Ég held að sama ræðan hafi verið flutt hérna í 20, 30 eða 40 ár. Þegar kemur að öryrkjum er einhvern veginn alltaf eins og ekki sé hægt að laga kerfið, ekki hægt að gera þetta einfaldlega rétt, byggja upp kerfi sem kemur fram við það fólk af sömu virðingu og annað fólk. Það eru endalaust sporslur hér og þar, hitt og þetta tínt til, fjárhæðirnar svo lágar að það verður kjánalegt, sérstaklega í samanburði við umræður um önnur mál sem hafa t.d. verið í deiglunni undanfarið. Ef við nefnum sölu á Íslandsbanka — þar erum við með fjárhæðir sem ég held að fæstir eigi gott með að tengja við raunveruleikann í lífi sínu. En svo þegar við erum að tala um öryrkja erum við að tala um einhverja hundrað þúsundkalla, jafnvel einhverja tíu þúsundkalla. Við erum að tala um 60.000 kr. sem öryrkjar fá í jólabónus nú fyrir jólin. Það er talsvert minna en hinir útvöldu fengu, þeir sem fengu tækifæri til að kaupa og selja á einni nóttu í Íslandsbanka og græða á því margar milljónir.

Það sem orsakar þessar endalausu sporslur, þessar endalausu lagfæringar og þennan sparðatíning þegar kemur að fjármálum öryrkja, er hugmyndafræðin sem er undirliggjandi í kerfinu. Ég hef rætt þetta áður í þessari pontu og mun halda áfram að ræða þetta eins og margt annað. Hið raunverulega vandamál felst í því hvernig við hugsum um samfélagið okkar og kerfið, fólk almennt, hvaða hlutverk það hefur í samfélaginu og hvers virði það er — ég ætla bara að segja það hreint út. Þar vakna margar spurningar en ekki einungis varðandi útfærslu velferðarkerfisins heldur akkúrat grunnhugsunina sem býr að baki í velferðarkerfinu okkar.

Ég spurði þessarar spurningar hér í pontu um daginn varðandi grundvallarhugmyndafræðina að baki örorkulífeyriskerfinu, bara svo að ég taki það sem dæmi — ég byrja á að taka það fyrir þó að þetta eigi við um mjög margt annað í samfélagi okkar, sem ég mun víkja að síðar. Þetta á í raun við um alla minnihlutahópa og mjög margt, hvort sem það eru útlendingar, vímuefnaneytendur, fangar, allir sem á einhvern hátt standa höllum fæti í samfélaginu. Það er alltaf sama hugmyndafræðin að baki því kerfi sem við erum búin að byggja upp sem á að tryggja fólki lífsviðurværi og það er — nú vil ég bara taka öryrkjana sem dæmi, eins og ég segi, ég vík að hinu síðar — staðalímyndin sem endurspeglast í kerfinu og orsakast af því líka. Þetta er fullkominn vítahringur. Það er sú hugsun að öryrkjar séu óhjákvæmilega fátækt fólk. Ef öryrki er ekki fátækur hlýtur hann annaðhvort að vera gríðarlega heppinn og hafa erft eitthvað eða annað slíkt eða að það er eitthvað að kerfinu. Ef hann á einhverja peninga þá þarf nú að passa upp á að það sé alveg örugglega ekkert af þeim peningum sem kemur úr ríkissjóði. Þetta er hugmyndafræðin. Hugsunin er þessi og það er ekki bara staðreyndin fyrir margt fólk vegna þess hvernig kerfið er byggt upp heldur er það hugmyndin að baki kerfinu að þannig eigi það að vera. Við segjum þetta kannski ekki upphátt og við stillum þessu ekki þannig upp en það er hugsunin sem hvílir að baki. Þannig á það að vera. Ef öryrki eignast t.d. nýjan flottan bíl eða gengur um í fínum fötum þá hlýtur eitthvað að hafa klikkað. Fólk með tiltekna fötlun á t.d. rétt á því að fá styrki til þess að breyta bifreið sem dæmi eða breyta húsnæði og það getur strandað á því að bíllinn sé of flottur eða húsnæðið of fínt. Það gengur náttúrlega ekki að ríkið sé að styrkja fólk til að fá sömu tækifæri og njóta jafnræðis á við annað fólk ef það hefur efni á að bjarga sér sjálft. Þetta er þessi grundvallarhugsun og hún er skökk.

Þá hugsar maður: Hvers vegna ættu öryrkjar endilega að vera fátækari en annað fólk? Hvers vegna þarf það að vera þannig? Hvers vegna getum við ekki viðurkennt það í okkar samfélagi að það sé hlutverk ríkisins, að það sé hlutverk samfélagsins — ég vil trúa því að það sé okkar sameiginlega hugmyndafræði, alla vega okkar flestra, að við eigum öll að hafa sömu tækifærin og við eigum að hafa jöfn tækifæri. Það snýst ekki bara um það að hjálpa fólki upp af brúninni í dýpstu holunni heldur snýst það um að við höfum raunverulega jöfn tækifæri og við stöndum jöfn þegar kemur að því að skapa okkur gott líf. Þess vegna spyr maður: Er það mannsæmandi hugmyndafræði að fólk, vegna skerðingar eða fötlunar, sé dæmt af ríkinu til að lifa undir fátæktarmörkum? Er það mannsæmandi hugmyndafræði?

Örorkubætur eru einu tekjurnar sem margt fólk hefur. Að einhverju leyti er það vegna þess að vinnumarkaðurinn er ekki mjög móttækilegur fyrir skertu starfshlutfalli eða því að fólk vinni ekki fulla vinnu. Þar komum við að öðru vandamáli sem er mjög djúpstætt í okkar samfélagi. Ég gæti talað um það í löngu máli en það fellur kannski ekki alveg undir það umræðuefni sem við erum að ræða akkúrat hér, þ.e. hvernig við lítum á vinnu og vinnuframlag og þann vinnutíma sem við eigum að leggja fram og annað. Það er í raun svo úrelt hugsun á bak við allt þetta kerfi og það endurspeglast ekki síst þegar kemur að fólki sem kýs að hafa sveigjanlegan vinnutíma, sveigjanlegt starfshlutfall, skert starfshlutfall, öll sú formfesta. Ég veit ekki hvað það er orðið gamalt þetta kerfi sem við búum við, að fólk eigi að vinna átta tíma á dag fimm daga vikunnar og allt það en það setur upp enn fleiri hindranir fyrir fólk sem hefur kannski ekki orku eða getu til að vinna jafn mikið og kerfið gerir ráð fyrir. Það er einmitt talað um fólk sem er ekki með fulla starfsgetu — hvað er full starfsgeta? Það er eitthvað sem við ættum til að byrja með að endurskilgreina.

Staðreyndin sem stendur eftir, t.d. varðandi atvinnuþátttöku öryrkja, er sú að þarna er vinnumarkaðurinn ekki opinn fyrir þeim sveigjanleika sem við ættum að hafa í nútímasamfélagi. Í ofanálag er það þannig að ef fólk sem hefur mismunandi mikla starfsgetu, mismunandi mikla orku, sem ég held reyndar að eigi bara við um okkur öll, þá refsar það kerfi — við höfum byggt kerfið upp til þess að tryggja að allir hafi eitthvert grunnlífsviðurværi, kerfið á að gera það, þrátt fyrir það sem kallað er skert starfsgeta — fólki í raun fyrir að reyna að leggja meira af mörkum eða hafa meiri orku á einhverjum tilteknum tíma. Það er ekki til of mikils ætlast að það sé raunverulega þess virði fyrir fólk að velja að nota þá takmörkuðu getu og orku sem það hefur í vinnu og að það framlag sé ekki einskis metið heldur sýni kerfið að framlag þessa fólks og orka sé metin eins og á við um annað fólk. Kerfið okkar er ekki byggt upp þannig. Þetta er ekki eingöngu réttlætismál — þetta er sannarlega réttlætismál — heldur þvingar kerfið fólk í verri stöðu og letur það frá því að reyna að auka orku sína og efla getu sína til að taka þátt í samfélaginu. Af því hlýst kostnaður, beinharður kostnaður, í ofanálag við mannlegan kostnað sem ég mun ræða í öðru samhengi síðar í þessari ræðu minni ef mér gefst tími til.

Ég ætla aðeins að halda áfram með þær vangaveltur sem ég ljáði máls á hér í upphafi og ég hef talað um áður en það er varðandi þær staðalmyndir sem liggja að baki mörgum þeirra reglna sem gilda um atvinnuþátttöku öryrkja og á raunar við um fleira, svo sem útlendinga, eins og ég mun víkja að á eftir. Það er sú hugsun að öryrkjar séu í eðli sínu byrði á kerfinu, byrði á samfélaginu. Þetta gegnsýrir allt kerfið og á sama tíma veldur þessi staðalmynd því að kerfið gerir fólki ókleift að leggja sitt af mörkum, t.d. í formi virkrar þátttöku á vinnumarkaði. Kerfið okkar lítur svo á að annaðhvort getir þú unnið eða ekki. Ef þú ert öryrki þá getur þú ekki unnið, ef þú getur unnið þá ertu ekki öryrki. Þá er bara eitthvað að gerast, þá hlýtur þú bara að vera að svindla á kerfinu. Þannig er kerfið okkar byggt upp. Það endurspeglast sannarlega í þessu fjárlagafrumvarpi, nú sem fyrr, það er engin hugarfarsbreyting. Við finnum enga hugarfarsbreytingu í þessu fjárlagafrumvarpi þrátt fyrir að að baki því standi flokkar sem jafnvel hafa í einhverjum atriðum tiltölulega róttæka sýn eða hafa látið í veðri vaka að það sé tilfellið. Það er ekki að sjá í þessu fjárlagafrumvarpi. Í fjárlagafrumvarpinu sjáum við sömu söguna og öll síðustu ár og áratugi og það eru þessar endalausu sporslur, hugarfarsbreytingin er hvergi nærri.

Líkt og ég sagði er það ekki til of mikils ætlast að það sé raunverulega þess virði fyrir fólk að velja að nota þá takmörkuðu getu og orku sem það hefur í vinnu — og mismunandi, hún getur verið sveigjanleg — og að það framlag sé ekki metið einskis virði með skerðingum og lækkunum sem í rauninni núllstilla fjárhagslegan afrakstur af því framlagi sem kemur til vegna þeirrar rammskökku grundvallarhugsunar að öryrki eigi alls ekki að geta unnið neitt og aldrei. Ef hann getur það og gerir það þá er eitthvað í ólagi í kerfinu og við því þarf að bregðast með skerðingum, svo að hann sé ekki að svindla. Þessar skerðingar eru kallaðar hvatar, ég hef reyndar aldrei almennilega skilið það. Það hefur alltaf skotið svolítið skökku við í mínum huga. Þessir hvatar eru nefnilega neikvæðir, þeir hvetja ekki heldur letja. Við viljum öll vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Flest okkar viljum vera það, m.a. með þátttöku á vinnumarkaði og með því að leggja okkar til með vinnuframlagi og með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Þetta á við um öryrkja jafnt og annað fólk. Allt fólk vill hafa hlutverk í samfélaginu. Það er mín skoðun að við eigum að byggja upp kerfi sem bæði gefur fólki færi á að leggja til samfélagsins og hvetur það til þess. Þá er ég ekki bara að tala um skattgreiðslur heldur bætum við samfélagið með virkni, það er bara svoleiðis.

Í þessu ljósi — það er síðasta atriðið sem ég vil nefna hvað þetta varðar — þá vekur það ákveðna furðu að hinn svokallaði grunnlífeyrir, þ.e. örorkulífeyrir og aldurstengdur örorkulífeyrir, skuli einnig sæta skerðingum. Það er kannski besta dæmið um þessa skökku grundvallarhugsun, þessa staðalmynd sem gegnsýrir kerfið sem ég lýsti hér áðan. Ætti hann ekki, þessi lífeyrir, í samræmi við nafngiftina, að teljast til grunnlífeyris sem kemur t.d. til móts við þá staðreynd að fatlað fólk þarf iðulega að standa undir meiri rekstrarkostnaði, ef við köllum það það, í daglegu lífi vegna fötlunar sinnar. Í ofanálag við mikinn kostnað, t.d. við sjúkraþjálfun, læknistíma og lyf, sem sannarlega eru ekki að fullu niðurgreidd, er fatlað fólk í þeirri stöðu að þurfa aðgengilegra húsnæði sem er dýrara, aðgengilegri bifreiðar sem eru dýrari og hjálpartæki af ýmsum gerðum. Þau slíta fatnaði á annan hátt en hefðbundinn líkami. Sem dæmi þarf kona sem notar gervifót að kaupa reiðinnar býsn af sokkum því að sokkarnir slitna illa. Hvers vegna er þessi grunnlífeyrir ekki akkúrat það, grunnupphæð sem sæmir norrænu velferðarkerfi?

Þá hef ég lokið umfjöllun minni um þennan þátt að þessu sinni. Að sjálfsögðu er þeirri umræðu ekki lokið enda, eins og ég nefndi, hefur ríkisstjórnin ekki sýnt með neinum sannfærandi hætti að einhver breyting á hugmyndafræði sé í sjónmáli, allra síst með þessu fjárlagafrumvarpi. Þá ætla ég að vinda mér að því sem ég held að flestir hér inni séu búnir að átta sig á að sé mitt helsta hjartans mál og það eru útlendingamálin. Ég hef um áraraðir, sennilega frá því ég var lítil, haft gríðarlega mikinn áhuga á fyrirbærinu fólksflutningar á milli landa og yfir höfuð frelsi okkar til að fara úr einum stað í annan og frelsi fólks til þess að gera allt sem það getur til að búa sér og sínum líf.

Það sem vekur fyrst og fremst athygli við lestur frumvarpsins, þegar kemur að þessum málum, er hversu miklir peningar fara í ákveðna þætti sem varða útlendinga og það er meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Þarna stend ég mig að því að vera sammála einstaklingum sem eru annars mjög ósammála mér í pólitík þegar ég segi: Við erum að eyða allt of miklum peningum í þetta kerfi. Við erum að eyða milljörðum á milljarða ofan í kerfi sem við höfum byggt utan um umsóknir fólks sem er að leita sér lífs og friðar, frelsis; umsóknir þess um að fá að lifa í friði og í frelsi eins og annað fólk. Hvers vegna kostar það svona rosalega mikinn pening? Það eru margir sem halda að það kosti svona mikinn pening af því að það kosti svo mikinn pening að hjálpa fólkinu. Það þarf að halda því uppi af því að þetta fólk vill ekki vinna og allt þetta. En það er misskilningur. Nú er ég búin að vinna í þessum bransa í fleiri ár en ég get talið — ég er að missa sjónar á tölunni, 12 til 15 ár eitthvað svoleiðis — og það sem maður sér þar er að peningurinn er ekkert að fara í að hjálpa fólki. Þessir peningar eru að fara í það að tryggja að fólk geti ekki hjálpað sér sjálft, vísa því úr landi, halda því föstu í stöðu þar sem það getur ekki bjargað sér sjálft, halda því í biðstöðu í lengri tíma sem getur orðið til þess að það missir að endingu getuna og færnina til að sjá um sig sjálft sem það hafði í upphafi. Við erum að eyða rosalega miklum peningum í þetta. Þetta er kostnaður við málsmeðferð. Þetta er kostnaður við lögfræðinga og annað starfsfólk hjá stjórnvöldum, hjá Útlendingastofnun, hjá kærunefnd útlendingamála, hjá ráðuneytum og annars staðar við að afgreiða umsóknir um alþjóðlega vernd og raunar önnur dvalarleyfi, þetta á svo sem líka við um fleiri dvalarleyfaflokka. Við erum að eyða svakalega miklum peningum í að halda fólki úti, tryggja að það geti ekki flutt hingað eða sem fæst alla vega. Þetta er mikill kostnaður. Þetta eru margar milljónir per umsókn, hugsa ég. Til samanburðar má velta því fyrir sér hvað það kostar mikið að „hleypa fólki hingað inn“, t.d. frá öðrum Evrópuríkjum, öðrum EES-ríkjum. Það kostar bara sáralítið. Það eru engir milljarðar sem fara í það. Og hvers vegna er það? Það er vegna þess að ekki er verið að eyða öllum þessum peningum í að reyna að koma þeim í burtu. Þau eiga einfaldlega rétt á því að koma hingað og vera hérna eins lengi og þeim sýnist. Það eru ákveðnar reglur sem gilda um það, þau þurfa að skrá sig eftir þrjá mánuði eða sex mánuði ef þau eru að leita sér að vinnu. Það er sannarlega fínt að skrá sig, þá fær fólk kennitölu og getur verið hluti af kerfinu. Þeim ber ekki skylda til þess framan af. Þetta kerfi kostar alls ekki mikið á mann þannig að það er langtum ódýrara að leyfa fólki einfaldlega að vera frekar en að reyna að þvinga það til að fara.

Þá er það kostnaður við brottvísanir, bara kostnaðurinn við það að flytja fólk úr landi. Hann er gríðarlega mikill. Ég óskaði eftir upplýsingum frá ráðherra um þetta í fyrravetur, um það hversu mikið það kostar að meðaltali að flytja einstakling úr landi gegn vilja sínum. Svarið var að kostnaðurinn væri að meðaltali 2 milljónir á einstakling, eða þar um bil. Inni í þeirri tölu er bara beinn kostnaður við flutninginn, það er flugmiði, það er starfsfólk þegar á flutningnum stendur og annað. Það sem vantar inn í þessa tölu er almennur rekstrarkostnaður, það sem kallað er stoðdeild ríkislögreglustjóra, sem er sú deild sem sér um þetta verkefni, að taka fólk og flytja það úr landi, hvort sem því líkar betur eða verr. Það er sannarlega hellingsvinna sem á sér stað hjá stoðdeildinni sem kannski tengist ekki einhverjum tilteknum málum beint eða er alla vega ekki færð undir ákveðið mál. Þar á meðal er kostnaðurinn við að leita að fólki. Við sáum nú ansi gróf dæmi um þetta nýlega þegar miklu púðri, mikilli vinnu, mikilli orku og miklum fjármunum, var varið í það að hafa uppi á fólki sem var ekki einu sinni búið að fá endanlegt svar í máli sínu hér á landi og koma því úr landi sem allra fyrst. Við höfum þegar óskað eftir upplýsingum um það hvað þetta kostaði og höfum fengið einhverjar tölur en okkur er sagt að þær séu samt ekki tæmandi vegna þess að almennur rekstrarkostnaður stoðdeildarinnar er ekki þar inni, sem er þessi kostnaður við að eyða dögum og vikum og nóttum og sólarhringum í að reyna að finna fólk.

Annar kostnaður sem hlýst af því kerfi sem við höfum byggt upp, kostnaður sem að mínu mati er í langflestum tilvikum óþarfur, væri óþarfur ef við værum ekki búin að byggja upp þessa múra í kringum landið okkar, er kostnaður við uppihald. Það er kostnaður við húsnæði, fæðiskostnaður, ýmsa aðra þjónustu, ýmislegt sem fólk þarf á að halda, sem það gæti staðið straum af sjálft ef það fengi tækifæri til þess, ef það fengi að vinna, ef það fengi að sjá um sig sjálft. Það fær ekki að sjá um sig sjálft af því að það verður að gjöra svo vel og bíða eftir því að við tökum ákvörðun um það hvort við ætlum að leyfa þeim að lifa lífi sínu hér eða ekki. Þetta er mikill kostnaður, þetta er gríðarlega mikill kostnaður og hann er meira að segja ekki allur inni í þeim tölum sem eru flokkaðar undir þennan málaflokk í fjárlagafrumvarpinu. Síðast en ekki síst er það mannlegi kostnaðurinn við þetta kerfi, kostnaður sem leiðir til mikillar eymdar, leiðir til áfalla og kvíða og alvarlegra andlegra og líkamlegra vandamála hjá fólki sem er ekki frjálst og er þvingað til að vera í einhverri stöðu og þvingað til að geta ekki séð um sig sjálft í lengri tíma. Þegar sá tími verður mjög langur verður sannarlega manntjón af, bæði vegna andlegra og líkamlegra kvilla en einstaklingar hafa líka tapað lífi sínu í stríði við kerfið hér á landi sem annars staðar, sérstaklega mikið í Evrópu. Sagan mun dæma það kerfi sem við höfum byggt upp og sagan mun dæma okkur fyrir það. Þessi mannlegi kostnaður er ekki mældur í fjárlagafrumvarpinu, sannarlega ekki, en afleiddur kostnaður hlýtur að koma þar fram. Afleiddur kostnaður, beinn kostnaður af þessum mannlegu hörmungum, er auðvitað heilbrigðiskostnaður. Kostnaður við það að fólk er ekki lengur vinnufært þegar búið er að halda því óvinnufæru í mörg ár og annað slíkt. Þetta er líka ómælt, þennan kostnað erum við ekki heldur að mæla. Þarna eru mikil sparnaðartækifæri. Þarna eru niðurskurðartækifæri sem ég hvet þessa ríkisstjórn og aðrar sem á eftir henni koma til að skoða alvarlega, nýta þessi tækifæri.

Fjárlagafrumvarpið sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir milljarðaaukningu til Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendinga og í þetta kerfi. En sem fyrr segir eru þessir peningar ekki að fara í það að hjálpa flóttafólki. Það kostar ekki marga milljarða á ári að leyfa fólki að vera hérna, sem er það sem fólk er fyrst og fremst að óska eftir. Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt spurninguna: Af hverju sækir fólk ekki bara um dvalarleyfi? Það er það sem þau eru að gera, þau eru að sækja um dvalarleyfi, fólk er að sækja um dvalarleyfi, það er ekki að sækja í neitt annað. Það á rétt á ýmsu öðru vegna þess að það er gjarnan í sérstaklega viðkvæmri stöðu. En það er ekki það sem það er að sækjast eftir. Það er að sækjast eftir réttinum til þess að fá að vera og lifa, byggja sér upp líf, sér og sínum. Það kostar miklu minna að gefa fólki kost á því að verða hluti af samfélaginu en að halda því í fjötrum kerfisins.

Mig grunar hins vegar að þeir auknu fjármunir sem verið er að verja í þetta kerfi núna, samkvæmt þessu frumvarpi, snúist ekki eingöngu um þann aukna fjölda sem er að sækja hingað vegna þess að þorrinn af þeim fjölda fær nokkurn veginn sjálfkrafa leyfi til að dvelja hérna. Þar er ég augljóslega fyrst og fremst að tala um flóttafólk frá Úkraínu. Þau fá með því að vera með úkraínskan ríkisborgararétt eða gild dvalarleyfi í Úkraínu leyfi til að vera hér á landi og það kostar ekkert svo svakalega mikið að leyfa þeim að vera.

Hins vegar liggur annað frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þessu þingi, um breytingar á lögum um útlendinga, sem mun, ef það frumvarp verður samþykkt hér á þingi, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki, minnka skilvirkni kerfisins, búa til flóknar sérreglur, undantekningar á ágætu regluverki sem var samið af þverpólitískri nefnd fyrir nokkrum árum og sátt hefur ríkt um að mestu leyti. Gagnrýnin sem hefur fallið á þetta kerfi beinir engum í þá átt sem þetta frumvarp er að fara, akkúrat í öfuga átt. Kostnaður við málsmeðferð eykst fyrir vikið þegar málsmeðferðin er lengd og gerð flóknari. Það er það sem er að gerast þó að öðru sé haldið fram í athugasemdum við frumvarpið. Það er ekkert sem bendir til þess að umsóknum um vernd muni fækka hér á landi, að þeim sem leita hingað vegna þess að þau eru í neyð muni eitthvað fækka. Það er ekkert sem bendir til þess, nákvæmlega ekki neitt, eða að neitt í þessu frumvarpi muni með öðrum hætti leysa þær áskoranir sem við sannarlega stöndum frammi fyrir, sem er aukinn fjöldi fólks á flótta og fólks á ferðalagi yfir höfuð; ekkert í þessu frumvarpi. Ég ætla reyndar að segja: Jú, það er eitt, en það er líka í öðru frumvarpi sem þingmaðurinn sem hér stendur hefur lagt fram sérstaklega og það varðar það að fólk með dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða geti fengið óbundið atvinnuleyfi. Ég ætla svo sem ekki að fara út í það, það er mjög jákvæð breyting, ég styð hana, ég hvet alla til að greiða því frumvarpi mínu veg í gegnum þingið þar sem þær breytingar eru fullkomlega óumdeildar hér.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra munu leiða til þess að þeim einstaklingum sem eru hér árum saman án þess að fá niðurstöðu í máli sínu mun fjölga. Ekki nóg með að þau fái ekki niðurstöðu um umsókn sína um vernd heldur munu þau ekki einu sinni fá niðurstöðu um það hvort íslensk stjórnvöld muni komast að niðurstöðu um umsókn þeirra. Þegar lögin voru sett árið 2016 var það eitt helsta markmið þeirra sem sömdu það frumvarp að stytta málsmeðferðartíma. Til þess að gera það voru settir niður ákveðnir tímafrestir sem á að gjöreyðileggja með þessu frumvarpi, reyndar á mjög klaufalegan hátt. Það væri snyrtilegra að afnema einfaldlega þessa tímafresti, mun snyrtilegra og einfaldara, en ég held að það þyki ekki áferðarfallegt fyrir ákveðna flokka í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Því er farin sú leið að eyðileggja þessa fresti með einhverjum mjög klaufalegum útfærslum á þeim. Ég ætla svo sem ekkert að vera með málalengingar um það hér. Mér mun líklega gefast tækifæri til að tala í miklum smáatriðum um það frumvarp síðar, vonandi mun síðar. En það sem gerist þegar þetta er eyðilagt er að við stöndum frammi fyrir sama vandamáli og við gerðum áður en þau lög voru samþykkt, áður en sú þverpólitíska vinna fór fram og sú sátt náðist, og það er að fólk dvelji hér árum saman án þess að fá einu sinni niðurstöðu um hvort málið verði tekið til efnismeðferðar eða hvort því verði hreinlega vísað frá, hvort umsókninni verði vísað frá, t.d. vegna þess að eitthvert annað ríki sem er aðili að Dyflinnarsamstarfinu beri ábyrgð á umsókninni eða ef viðkomandi hefur fengið alþjóðlega vernd einhvers staðar annars staðar. Þetta tekur ekki meira en eitt ár í dag vegna þess að eftir eitt ár þá á fólk rétt á efnismeðferð, alla jafna. En verði þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra að lögum mun þetta vandamál koma upp aftur. Í ofanálag skerða breytingarnar sannarlega réttindi fólks á flótta, fólks sem er í raunverulegri neyð. Hefur verið bent á að líklega séu margar þessara breytinga ekki í samræmi við stjórnarskrá. Því miður hefur meiri hlutinn hér á þingi ekki fengist til þess að láta skoða það ofan í kjölinn og gera þá lagfæringar á frumvarpinu sem þarf að gera til að tryggja að það standist stjórnarskrá. Það mun náttúrlega kosta sitt. Við vitum hvað það kostar þegar ríkið er dæmt fyrir að brjóta eigin reglur, það er með skaðabótum til einstaklinga. En sannarlega eru „aðrar lausnir“ í þessu frumvarpi sem eiga að tryggja að fólk nái ekki neinu fyrir dómstóla. Það er kannski þannig sem á að koma í veg fyrir skaðabótaskyldu en það er kannski smáútúrdúr. Að öllu óbreyttu leiðir það til skaðabótaskyldu þegar sú er staðan. Vandinn við það kerfi er hins vegar ekki löggjöfin, það er framkvæmdin. Hún er, ætla ég að leyfa mér að segja, ómannúðleg og skapar miklar tafir og tregðu í kerfinu sem kostar mjög mikla peninga. Þetta ætla ég að gagnrýna. Ég ætla að leyfa mér að standa hér eina ferðina enn og segja: Við erum að eyða allt of miklum peningum í þetta kerfi. Þarna eru gríðarlega mikil tækifæri til niðurskurðar.

Ein breytingin sem mun mögulega baka ríkinu skaðabótaskyldu er afnám réttar fólks til þess að fá mál sitt endurupptekið, þ.e. ef einstaklingur kemur með ný gögn eða nýjar upplýsingar er verið að búa svo um hnútana að hann eigi nánast enga möguleika á að fá málið endurskoðað í ljósi þeirra nýju gagna eða nýju upplýsinga. Þarna er verið að setja sérákvæði sem ógilda almennar reglur í stjórnsýslurétti um rétt til endurupptöku þegar ný gögn eða breyttar forsendur eru fyrir hendi. Það er verið að flækja reglur sem eru í rauninni bara mjög skýrar og hafa gengið vel í öðrum málaflokkum í áratugi. Ef þær hafa gengið eitthvað illa í meðförum útlendingayfirvalda þá tel ég að ástæðuna megi rekja til einhvers annars en þess að þessi réttur eigi ekki að vera þarna fyrir hendi. Ekki það að gríðarlegan fjölda umsókna eða beiðna um endurupptöku á allra síðustu misserum má augljóslega rekja til heimsfaraldurs Covid, sem er svo gott sem hjá liðinn, sem betur fer eða vonandi. Við erum kannski búin að ná nægilegum tökum á honum til þess að þetta ætti ekki að verða áframhaldandi vandamál. Ef stjórnvöld afgreiða málin innan skynsamlegs tíma og afgreiða þau í samræmi við lögin lendum við ekki í þessari stöðu.

Í frumvarpinu eru líka ákvæði um að svipta fólk ákveðinni aðstoð, ákveðinni þjónustu sem, að því er virðist við fyrstu sýn, á að spara ríkinu einhverja peninga. Við vitum alveg að það sparar ríkinu enga peninga að setja fólk í örbirgð sem þarf ekkert endilega að vera þar.

Nú er ég alveg að falla á tíma og ég er bara rétt að byrja en ég ætla að halda aðeins áfram. Ég ætla að fletta aðeins yfir umfjöllun mína um þann kostnað sem mun hljótast af þessu frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra þótt hann sé heilmikill. Ég ætla að fara í þær breytingar sem lúta að lögreglu og lögregluyfirvöldum. Þessi ríkisstjórn hefur boðað breytingar sem kannski gætu hljómað vel, gætu verið góðar. Efling lögreglunnar — ég held að mjög margir hafi kallað eftir því í áraraðir en kannski ekki alveg með þeim hætti sem þessi ríkisstjórn virðist hafa skilið, þar sem eyða á miklum fjármunum í að auka valdheimildir lögreglu og annað slíkt. Það væri skilvirkara, betra og mannúðlegra, væri betri meðferð á fjármunum og væri framsæknara að fjölga bara lögreglumönnum, auka þjálfun og auka stuðning við fólk, auka réttindi lögreglufólks í vinnu, auka öryggi þeirra við vinnu með fjölgun lögreglumanna og með því að ráðast að rótum þeirra vandamála sem t.d. ýta undir ofbeldi, aukið ofbeldi, í samfélaginu. Við eigum að ráðast að rótum vandans í stað þess að vera alltaf í hálfgerðu ofbeldi að reyna að kljást við hann, og nú er ég alveg að falla á tíma. Það er alveg ljóst að ofbeldi verður ekki leyst með ofbeldi. Það að veita lögreglunni frekari heimildir til að beita ofbeldi mun ekki minnka ofbeldi í samfélaginu, þvert á móti.

Þar sem ég fallin á tíma og er bara rétt að byrja ætla ég að biðja hæstv. forseta um að smella mér aftur á mælendaskrá.