Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[04:03]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Þá ætla ég að halda áfram yfirferð minni um fjárlögin og þau málefnasvið sem þar eru og reyni að koma með upplýsingar um það hvar hlutir eru fyrir þá sem eru að hlusta og hafa kannski ekki eytt tímanum í að lesa sig í gegnum þessar 500 síður, en líka til að koma með smá athugasemdir við það hvað er verið að gera. Þess má geta að við vorum búin að tala hér áðan um málefnasvið 1 og 2 og fyrir ykkur sem misstuð af því þá er það annars vegar um Alþingi og hins vegar dómstóla.

En næsta málefnasviðið, málefnasvið 3, er kallað æðsta stjórnsýsla. Undir það málefnasvið falla embætti forseta Íslands, ríkisstjórnin sjálf og forsætisráðuneytið. Það er kannski ágætt að fara í gegnum hvert og eitt af þessum undirsviðum og ræða þau aðeins.

Ég byrja þá á því sviði sem snýr að embætti forseta Íslands. Ég ætla að reyna að passa að ég sé með þetta hérna tilbúið ef ég mig vantar upplýsingar ef einhver skyldi spyrja. Æ, nei, það er víst enginn stjórnarþingmaður í salnum. En það er samt gott að hafa upplýsingarnar á reiðum höndum. En eins og ég segi: Embætti forseta Íslands, frú forseti. Þegar við skoðum embætti forseta Íslands þá er verið að skera niður þar þegar tekið er tillit til almennra launa- og verðlagsbreytinga. Ég sá ekki betur en að sá niðurskurður sé alls um 15,3 milljónir á milli ára, sem er líklega á við eitt stöðugildi til eða frá. Helstu breytingarnar, stærstu liðirnir í breytingunni eru, svipað og hjá Alþingi, að verið er að skera niður ferðakostnað varanlega, um 3,4 milljónir í þessu tilfelli. Þessi niðurskurður var sennilega bara mjög rökréttur á tímum heimsfaraldurs og sennilega voru eiginlega engin ferðalög 2020–2021 að ráði fyrir forsetann. En ef við lítum á það embætti, forsetaembættið, er það þannig að þetta er eitt af okkar helstu verkfærum, sér í lagi til að vekja athygli á Íslandi, íslenskri menningu og íslenskum fyrirtækjum. Ég verð að segja að ég hef góða reynslu af því og hef séð hvað það skiptir máli að forseti Íslands mæti í heimsóknir til annarra landa, mæti jafnvel í heimsóknir til stórfyrirtækja sem við þurfum að þrýsta á að styðji við t.d. íslenska tungu. Þess vegna finnst mér hreinlega sorglegt að við séum að skera niður þegar kemur að þessu embætti og því að forseti Íslands geti farið til útlanda í opinberar heimsóknir. Við þurfum bara að passa að hæstv. forseti sé ekki að ferðast akkúrat þegar við ætlum að hafa þingsetningu og annað slíkt. Það þarf kannski að passa það. Það er kannski niðurskurðurinn sem þau voru að spá í.

Innan embættisins er gerð aðhaldskrafa, en það er aðferðafræði sem virðist tíðkast mikið í þessu blessaða fjárlagafrumvarpi og fjárlagafrumvörpum síðari ára, þ.e. að gera bara flata aðhaldskröfu: Ja, þið hjá embætti forseta eigið að spara 6,8 milljónir. Það er í rauninni enginn útlistun á því hvernig og hvar og það er líka dálítið merkilegt að þetta sé gert svona. Ég giska á að þetta sé ætlað til þess að passa það að „báknið“ blási ekki út, eins og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins kalla það. En það er hins vegar dálítið athyglisvert, þegar lesið er í gegnum fjárlagafrumvarpið, að það er ekkert endilega gerð jöfn aðhaldskrafa á alla, heldur eru ákveðin embætti, jafnvel ákveðin ráðuneyti — þar er verið að bæta við en ekki gerð krafa um eitthvert aðhald. Og það virðist líka alltaf vera ákveðin einhver prósenta í stað þess að skoða eða fjalla um það í fjárlagafrumvarpinu, sem væri í rauninni mun aðgengilegra og skýrara, að það væri t.d. spurt: Hvaða hluti innan forsetaembættisins ætlum við að skera niður? Hvaða hluti í heildarkostnaðinum við forsetaembættið ætlum við að skera niður? Við vitum bara að það á að skera niður um 6,8 milljónir. Og ef við flettum upp í þessu þá kemur fram að heildarkostnaðurinn fyrir embætti forseta Íslands er um 350 millj. kr. Og jú, við heyrðum að það á að skera niður um 3,4 milljónir í ferðakostnaði en hitt er ekkert sagt, hvar eða hvernig eigi að skera niður. Ég veit ekki hvort forsetaritari eigi bara að vinna þrjá daga vikunnar, að þannig lækkum við þetta. Í rauninni koma engar hugmyndir. Og þó svo að ég sé kannski að tala hér um frekar lítið embætti og kannski er ég að fara of geyst í að tala um hæstv. forseta og hans embætti, þá er ég að nota það sem dæmi um hlut sem við sjáum í hverjum einasta málaflokki, þessa aðhaldskröfu.

Ég myndi vilja skoða þetta miklu dýpra og fá meiri upplýsingar vegna þess að ef forsetaembættið uppgötvar allt í einu 1. janúar, eða þegar við erum búin að samþykkja þetta frumvarp: Ó, ég á að spara 6,8 milljónir, þá er það svolítið seint. Ég held að það væri miklu betra að það væri búið að taka þessa umræðu við — í þessu tilfelli þetta embætti, í öðrum tilfellum þær stofnanir, og það sé búið að ákveða hvað á að gera. Tökum Hafrannsóknastofnun sem dæmi , ef hún á að vera með aðhaldskröfu upp á sem samsvarar einum eða tveimur stöðugildum, hvað eiga þeir að skera niður? Eiga þeir ekki að sigla hafrannsóknaskipum út? Eiga þeir að reka einhverja sérfræðingana hjá sér? Þessar umræður eiga að vera komnar hér inn vegna þess að við erum að taka ákvörðun um að þarna sé niðurskurður upp á 6,8 milljónir, en við áttum okkur ekki á því, út frá þeim gögnum sem við fáum sem þingmenn, hvaða áhrif niðurskurðurinn hefur. Kannski verður hætt með fálkaorðuna af því að það kostar 6,8 milljónir eða eitthvað að afhenda hana. Við vitum það ekki. Við vitum ekkert hvert þetta fer. Þetta er dálítið athyglisvert og ég vona að við getum reynt að finna betri leiðir til að sýna þessar aðhaldskröfur og hvað þær þýða hér í framtíðinni. En við komum kannski nánar að þessu seinna þegar við skoðum önnur málefnasvið.

Næsta undirsviðið undir þessari æðstu stjórn er rekstur ríkisstjórnarinnar. En við megum ekki gleyma því að þarna var bætt dálítið vel í á síðasta ári, ef ég man rétt, jafnvel í fjáraukalögum líka vegna þess að það þurfti að bæta við ráðherra svo ráðherrakapallinn gengi upp. Grunnrekstur ríkisstjórnarinnar sjálfrar kostar 779 milljónir. Þarna er ekki verið að taka ráðuneytin heldur í raun bara launakostnað ráðherra og aðstoðarmanna þeirra. Ekki var gerður flatur niðurskurður á launum ráðherra og aðstoðarmanna þeirra. Það var engin aðhaldskrafa þar. Þess má þó geta að þessi upphæð lækkar aðeins á milli ára með tilliti til launa og verðlagsþróunar. En það verður athyglisvert að sjá hvernig þeir ná því, það er kannski bara það að þeir fá ekki launahækkun, sem ég held að sé ekki alveg rétt vegna þess að það er nú eitthvað sem gerist sjálfkrafa, ef ég man rétt, hér á þingi fyrir embættismenn og aðra.

Jæja, frú forseti, við skulum halda áfram með næsta málefnasvið. Næsti hluti af þessu málefnasviði er forsætisráðuneytið sjálft. Það er reyndar ekki bara ráðuneytið, þ.e. þessi grunnhlutur, ráðuneytið, heldur eru líka hin ýmsu verkefni og átaksverkefni sem falla beint undir forsætisráðuneytið sem koma þarna inn. Í upphaflegu útgáfunni af fjárlögum, þ.e. þessari stóru bláu bók — það má víst nota hana sem sýnidæmi, enda engin mynd — lækkaði kostnaðurinn við forsætisráðuneytið um sem svarar 893 milljónum auk hinna almennu launa- og verðlagsbreytinga sem eru um 41,3 milljónir. En þessi lækkun á sér þó ýmsar skýringar. Ein aðalástæðan er sú að dregið er saman og fært yfir á næsta ár, þ.e. 2024, um 850 milljónir vegna viðbyggingar við Stjórnarráðið, en þið sem hafið labbað upp Bankastrætið hafið eflaust tekið eftir því að það er búið að grafa heilmikið og það eru byrjaðar framkvæmdir bak við gamla hvíta húsið sem forsætisráðuneytið eða forsætisráðherra eða Stjórnarráðið er í, í gamla fangelsinu. Það er alltaf gaman að segja að ferðamönnum sem hingað koma að þarna hafi nú einu sinni verið fangelsi en núna sé forsætisráðherrann okkar þarna. Auk þessa kostnaðar við húsbygginguna, sem frestast — og það er náttúrlega hluti af þessari frestun á framkvæmdum að Seðlabankinn sagði við ríkisstjórnina: Þið verðið að fresta einhverjum framkvæmdum, annars heldur verðbólgan áfram að fara upp. Þannig að það var einhverju frestað en svo allt í einu horfir Seðlabankinn bara á samfélagsmiðlana og myndir af tám frá Tenerife, þannig að kannski byrja þeir aftur að byggja, maður veit það ekki.

En það var annar kostnaður sem fellur niður milli ára. Það var kostnaður vegna nefndar sem vann úttekt á viðbrögðum stjórnvalda við heimsfaraldri og eins var kostnaður í fyrra sem hafði að gera með endurskoðun á skipulagi ráðuneytisins, sem er hluti af þessum ráðherrakapli og því að það var að koma ný ríkisstjórn inn þó að það væru nú sömu leikendur í henni.

Þarna er aftur varanleg skerðing á ferðakostnaði upp á 8,5 milljónir þannig að ég reikna með því að forsætisráðherra og aðrir starfsmenn ráðuneytisins verði minna á ferðalögum erlendis miðað við þetta. Og eins var dálítil aðhaldskrafa upp á 28 milljónir sem aftur var ekki nein sundurliðun á, hvar og hvernig ráðuneytið ætlar að gera það aðhald. Ætlum við t.d. ekkert að spá neitt í jafnrétti á næsta ári? Nei, ég held að það sé kannski ekki líklegt. En það eru ýmis verkefni þarna innan forsætisráðuneytisins sem gætu horfið á milli ára og það væri miður ef það eru einhver góð verkefni. En aftur: Get ég sem þingmaður tekið upplýsta ákvörðun um það hvort þessi liður og þessi aðhaldskrafa sé góð eða slæm? Nei, ég veit ekki einu sinni hvaða áhrif hún hefur.

Það er nú alltaf þannig að það er ekki bara að marka það sem stendur í þessari bláu bók heldur þurfum við líka að skoða nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga árið 2023. Maður þarf að fara fyrst í bláu bókina til að sjá hvað er sagt þar og svo hvað er sagt í þessu áliti. Það má sjá að það detta inn nokkrir nýir liðir í þessu nefndaráliti og detta þá inn í það sem við munum þurfa að greiða atkvæði um þegar 2. umr. lokið, einhvern tímann fyrir áramót. Það eru tvö stór verkefni sem detta inn. Fyrra verkefnið er 40 millj. kr. tímabundið framlag til að vinna í sjálfbærniþróun og vinna að þróun mælikvarða um sjálfbærni, auk þess sem þessi upphæð verður notuð til þess að gera úttekt á því hvernig við sem þjóð stöndum þegar kemur að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. En það er einmitt mjög mikilvægt að gerð sé slík úttekt vegna þess að þetta eru ákveðin markmið sem öll lönd í heiminum settu sér að reyna að klára fyrir árið 2030, markmið eins og það að útrýma hungri og margt fleira, og það er mjög mikilvægt að það séu gerðar reglubundnar úttektir sem segja okkur hvernig okkur gengur vegna þess að markmiðin gilda til 2030. Við þurfum einmitt að vita hvernig við stöndum. Önnur lönd eru líka að gera þetta og það er mikilvægt fyrir okkur að sjá þetta. Sannleikurinn er sá að bæði heimsfaraldurinn og núna stríðið í Úkraínu og ofan á það sú ákveðna fjármálakreppa sem hækkun verðbólgu víða um heim veldur, allt þetta setur þessi heimsmarkmið í hættu. Í fyrsta skipti á milli mælinga er reiknað með t.d. að hungursneyð hafi aukist og fjöldi barna í skóla hafi dregist saman á heimsvísu. Gott og gilt verkefni sem ég styð heils hugar og mikilvægt er að vinna. En ég vona að það verði ekki bara skýrslur gerðar úr þessu, skýrslur með fallegum myndum — það er dálítið hjá þessari ríkisstjórn sem núna situr að það eru búnar til rosalega flottar skýrslur með myndum af hinum og þessum hlutum framan á en síðan er lítið um aðgerðir. En ég vona að það komi út úr þessu aðgerðaáætlun.

Bara rétt til að klára þetta þá er forsætisráðuneytið að úthlutað 60 millj. kr. tímabundnu framlagi vegna minnisvarða um eldsumbrotin í Heimaey, sannarlega mikilvægt að halda upp á þessi tímamót og byggja minnisvarða. Við getum svo bara spurt okkur hvort hægt hefði verið að fara kannski ódýrari leið en 60 milljónir.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum og ég komst rétt í gegnum eitt málefnasvið þannig að ég óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá til að fjalla um hin 30 sem eftir eru.