Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[04:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég ætla að fjalla aðeins meira um vinnulag hér á þingi og færa mig yfir í vinnulag nefnda og sérstaklega fjárlaganefndar. Við fáum þessi tvö stóru mál í umfjöllun nefndar, fjárlögin og fjármálaáætlun, svo koma fjáraukalög sem eru yfirleitt ákveðin tæknileg uppfærsla á þeim fjárheimildum sem hafa verið notaðar hvort eð er, t.d. umframfjárheimildir vegna atvinnuleysistrygginga eða lyfja o.s.frv., og koma yfirleitt eftir á. Það á eiginlega að vera náð í fjárheimildir á undan samkvæmt stjórnarskránni en hefð hefur komist á um að gera það eftir á, sem ég skil í einhverjum tilfellum, fyrir ákveðin málefnasvið og málaflokka, ákveðin verkefni eins og t.d. atvinnuleysistryggingar. Það er liður sem er réttur fyrir og er búið að uppreikna og þess háttar, fyrir hvaða réttindi og fyrir hvaða upphæðir, þannig að það er ekkert óeðlilegt að það sé bara gert upp í árslok hvernig sá liður á að vera.

Það er dálítið áhugavert að pæla í verklagi. Í þessu tilviki fáum við sent fjárlagafrumvarpið, vanbúið eins og það var. Við fáum fullt af umsögnum eins og venjulega sem að sjálfsögðu benda á gríðarlegt gat. Það var dálítið vandræðalegt að þurfa að útskýra fyrir umsagnaraðilum t.d. að það vantaði allar launauppfærslur miðað við kjarasamninga frá og með mars, held ég að það hafi verið frekar en í apríl, af því að það var ekki gert ráð fyrir neinum hækkunum vegna kjarasamninga. Það var bara sett niður í núll. Kjarasamningarnir eru að klárast á þeim tíma og hækkanirnar sem þar voru bara hurfu, það er ekki einu sinni gert ráð fyrir einhverju meðaltali miðað við fyrri kjarasamninga eða eitthvað svoleiðis út árið til að sýna stöðuna svona u.þ.b. fyrir stofnanir og málefnasvið og málaflokka. Það er mjög bagalegt af því að stofnanir sjá svona u.þ.b. hversu miklar fjárheimildir þær koma til með að fá í fylgiriti með fjárlögum og þurfa þá að gera rekstraráætlanir miðað við það. Þetta kom mörgum á óvart. Það er vandræðalegt að segja: Nei, veistu, fjárlagafrumvarpið er eiginlega ekki fullbúið. Þú mátt reikna með því að þú fáir launahækkanirnar, hverjar sem þær verða í kjarasamningum, þú þarft ekki að skera niður eða segja upp fólki út af því að fjármagn vanti, því verður bætt við.

Verklagið er nokkurn veginn svoleiðis að við setjumst niður og fáum fyrst öll ráðuneytin sem koma og útskýra nánar en er í fjárlagafrumvarpinu hvernig fjárheimildir eru að breytast hjá þeim. Það er mjög mismunandi á milli ráðuneyta hversu góðar framsetningarnar eru. Þær hafa verið sérstaklega góðar hjá heilbrigðisráðuneytinu og að mig minnir í utanríkisráðuneytinu, ég er örugglega að gleyma einhverjum eða misfara með þetta en alla vega hefur heilbrigðisráðuneytið alltaf með einstaklega góða framsetningu. Það spilar dálítið inn í það sem ég var að tala um áðan, að ráðuneytin stjórna framsetningunni rosalega mikið. Ég reyndi á síðasta kjörtímabili að fá fjárlaganefnd til þess að senda kynninguna sem við fáum frá heilbrigðisráðuneytinu til allra hinna ráðuneytanna og segja bara: Við viljum fá svona, vinsamlegast gerið þetta eins og heilbrigðisráðuneytið, takk. En nei, það er ekkert svoleiðis að ganga, merkilegt nokk. Að auki má bæta við upplýsingum. Það er áhugavert að yfirleitt eru tvær, þrjár vikur í upphafi þings þar sem er verið að safna málum en svo kemur kjördæmavika þegar þingmenn fara út um allt, heimsækja kjósendur o.s.frv. Mjög gagnleg vika svo sem en hún er í rauninni aðallega hugsuð til þess að bíða eftir því að umsagnarfrestur klárist. Þegar þingmenn koma aftur eftir kjördæmaviku í þingið þá er umsagnarfrestur liðinn og þá er hægt að fara að kalla inn gesti í þessum málum sem þingið byrjaði á, þar á meðal fjárlögum. Þá er byrjað bara efst eða eftir stærstu aðilum eða hvernig það raðast, þ.e. hverjir fá að koma í heimsókn til fjárlaganefndar. Áður voru það miklu fleiri sem komu og fengu kannski fimm til tíu mínútur hver. Það var þegar Alþingi tók í rauninni við fjárheimildabeiðnum um allt frá öllum. Með lögum um opinber fjármál þá átti þetta að breytast. Þá átti að vera bara í sambandi við ráðuneytin sem áttu að taka stefnumótunina. Ef það er t.d. verið að tala um meðferðarmál vegna fíknisjúkdóma þá er það á ábyrgð ráðuneytanna að skipuleggja slíkt þannig að það séu kannski ekki einstaka meðferðaraðilar að keppast um athygli og samvisku þingmanna til að fá styrk. Þeir þurfa að vera faglegri í framsetningu sinni, útskýra hver þörfin er og hvernig þeir koma til með að mæta ákveðinni þjónustuþörf sem er samkvæmt lögum. En við erum enn þá með þessa anga hérna, SÁÁ eða eitthvað svoleiðis, sem hanga í rauninni næstum því inni á fjárlögum án þess að vera þess háttar félag. Af hverju er þessi þjónusta ekki boðin út, þessi þjónustuþörf, eða þess vegna rekin á opinberum forsendum? Það er verið að velja ákveðin félagasamtök til að reka þetta, sem mér finnst svolítið merkilegt, það verður til ákveðin einokun hvað það varðar. En allt í lagi.

Þegar umsagnaraðilar koma þá hefur það yfirleitt verið þannig að það er verið að fara yfir umsagnirnar eins og þær liggja fyrir, næstum því eins og þegar maður var í grunnskóla og tók eftir því að það hafði enginn lesið heima, það er bara samlestur eiginlega á umsögnum. Þetta er alveg rosaleg tímaeyðsla. Við erum með undirnefnd í gangi í fjárlaganefnd sem á að reyna að koma með tillögur um það hvernig væri hægt að gera hlutina öðruvísi og skilvirkari. Hún hefur lítið hist hins vegar. Við höfum beðið um tillögur frá nefndasviði, nefndarriturum, um þær kröfur sem Alþingi gerir um framsetningu til ráðuneyta. Við erum ekki búin að fá að funda um neitt slíkt sem er miður, því að þetta er rosalega mikilvægt. Upplifunin sem maður fær þegar það er bara ákveðinn samlestur á þessum umsögnum er sú að þetta sé málamyndaafgreiðsla. Meiri hlutinn hafi þurft að þola það að hitta alla umsagnaraðila og hafi þurft að sýna sig sem áheyranda að þessum umsögnum. Þau í meiri hlutanum vita hvort eð er hvað þau ætla að gera. Hverju þurfa þau að bæta við til að friðþægja hina ýmsu umsagnaraðila? Mér líður dálítið þannig, sérstaklega núna þegar hlutirnir eru farnir að breytast aftur í það að verið sé að senda beiðnir til Alþingis um fjárheimildir til einstakra verkefna úti um allt land. Það er aftur komið þangað sem var verið að reyna að hætta þegar lög um opinber fjármál fóru í gagnið. Skilvirknin hérna er stórkostlega léleg. Mér líður eins og við séum enn þá í samfélaginu sem sendir bréf en ekki tölvupósta, eins og það sé ekki hægt að biðja um upplýsingar og fá svar eftir einn dag af því að það er búist við því að bréfið þurfi viku í pósti til að fara landshorna á milli. Ég sé svo marga staði þar sem væri hægt að gera hlutina betur og skilvirkari, sérstaklega í fjárlagavinnunni þar sem þarf mikil upplýsingaskipti. Við þurfum að geta deilt upplýsingum, sérstaklega þegar við erum með svona fjárlagafrumvarp eins og þetta.

— Þetta dugar í bili, trúmálin næst.