153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Þegar Seðlabankinn segir eitthvað á þá leið að hann vonist til þess að það dugi þá vekur það ekki hjá mér gríðarlega mikið traust. Ég býst við því í fjárlaganefnd að Seðlabankinn geti komið fyrir Alþingi og sýnt hvar áhrif stýrivaxtanna eru, á hvaða lán, nýframkvæmdir o.s.frv. og geti lagt upp sviðsmynd sem stjórnvöld geta kannski líka komið til móts við á einhvern hátt, t.d. — af því að það þarf kannski að hækka stýrivextina aðeins meira — með vaxtabótum á móti, eða eitthvað því um líkt, til að jafna hjá þeim sem eru með breytilega vexti eða verðtryggingu og fasta vexti.

Maður veltir líka fyrir sér hversu mikið stýrivaxtabreyting eigi að seilast inn í lán sem er þegar búið að taka og breyta í rauninni forsendum þeirra. Mér finnst það bara dálítið skrýtið þegar allt kemur til alls af því að það ætti ekki að hafa áhrif á fortíðarákvarðanir heldur hvað við erum að fara að gera til framtíðar. Ég held að það þurfi að taka aðrar ákvarðanir til að einhvern veginn klóra í lán sem er búið að taka.

Háttvirtur þingmaður nefndi líka, svo ég fari nú ekki of mikið í hitt, að það væri rökstyðjanlegt að gefa í í niðursveiflu. En ég sé það líka þannig fyrir mér að við erum alltaf að sveiflast fram og til baka í skammtímaefnahagssveiflu og alltaf er verið að reyna að elta hana á einhvern hátt, gefa aðeins meira í, draga aðeins meira úr og alltaf er vanspáð. Jafnvel er hið opinbera að leggja rangt mat á þetta og gefa kannski of mikið í eða draga of mikið úr. Hins vegar ef við værum dálítið á jöfnum grunni — stöðugleikinn í útgjöldum er bara sú þjónusta sem þarf að sinna — og hunsum bara aðeins efnahagssveifluna þá myndi maður halda að þetta jafni sig yfir tíma; maður safnar og eyðir því sem safnast þegar niðursveiflan kemur.