Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:25]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V):

Forseti. Uppsafnaður halli á fjárlögum ríkisins frá árinu 2019–2023 stefnir í á áttunda hundrað milljarða. Þó að íslenska ríkið skuldi aðeins þriðjung af því sem gríska ríkið skuldar, sem við viljum kannski ekki endilega bera okkur saman við, eru vaxtagjöld íslenska ríkisins hærri en þess gríska. Vaxtagreiðslur eru nú með stærstu útgjaldaliðum á fjárlögum og eru til samanburðar fimm sinnum hærri á Íslandi en í meðaltali hinna Norðurlandanna. Afleiðingin er augljós, horfi menn á fjárlög komandi árs, og minna svigrúm til að sinna öðrum verkefnum. Við erum raunverulega að taka velferðina að láni. Það er ekki sjálfbært.

Hv. þm. Sigmar Guðmundsson gerði fjárlagatillögur Viðreisnar að umtalsefni í gær. Áhersla Viðreisnar er að snúa þessari þróun við, reisa við fjárhag ríkisins. Hvernig gætum við náð tökum á þessari stöðu? Jú, lausnirnar eru í sjálfu sér augljósar. Við þurfum annaðhvort að draga úr útgjöldum eða auka tekjur. Að draga úr útgjöldum er erfitt og sársaukafullt, eins og sést á umræðum hér þar sem margar góðar hugmyndir, sem menn eru sammála um að skynsamlegt væri að fara eftir, ná þó ekki í gegn af þeim ástæðum einum að ekki er svigrúm í tekjum ríkisins til að sinna þeim. Að auka tekjur er líka sársaukafullt og það hefur í för með sér ýmis neikvæð áhrif á samfélagið, tekjuskattar draga úr hvatanum til að afla tekna o.s.frv. En spurningin er: Hvar væri minnst erfitt að auka tekjur? Í þessu samhengi er rétt að minna á endurtekin álit bæði OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þess efnis að ríki beiti sér fyrir því að breyta áherslum í skattastefnu sinni yfir í skatta sem valda sem minnstum skaða og nefna í því samhengi alveg sérstaklega græna skattlagningu og auðlindagjöld. Hvort tveggja er í tillögum Viðreisnar að tekjuauka fyrir ríkissjóð á næsta ári.

Ég ætla að víkja að þessum tveimur tillögum í þessari ræðu hér í dag og byrja á því að ræða aðeins um græna skatta. Hugmyndafræðin þar er að í stað þess að skattleggja athafnir, sem við viljum auðvitað, eins og öflun tekna sem tekjuskattar vinna gegn, þá skattleggjum við athafnir sem valda skaða, athafnir sem við viljum draga úr.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerði einmitt ábyrgð okkar á loftslagsvá að umræðuefni í ræðu sinni um störf þingsins í gær. Í tillögu Viðreisnar er því lagt til að grænir skattar séu auknir. Ísland hefur þegar haft mjög góða reynslu af grænum sköttum í formi kolefnisgjalda en í dag er það þannig að kolefnisgjöld falla einungis á mjög lítinn hluta þeirrar losunar sem er á ábyrgð Íslands. Undanskildir eru mjög stórir þættir eins og t.d. losun frá stóriðju, losun frá flugi, losun frá millilandasiglingum og öðru sambærilegu. Grænir skattar geta haft gríðarleg áhrif og verið mjög jákvæðir. Ísland hafði þá forsjá að leggja slíka skatta á fleira en bara samgöngur á landi. Í dag greiðir útgerðin t.d. kolefnisgjöld og rannsóknir á þróun í losun útgerðar á undanförnum áratugum sýna að þeir skattar hafa haft áhrif. Það er því mjög athyglisvert að sjá að til umræðu verða hér síðar hugmyndir ríkisins um aðgerðir til þess að draga enn frekar úr losun frá útgerð og hvetja til orkuskipta í útgerð. Það kemur mjög á óvart að þær hugmyndir skuli ekki byggja á þegar reyndri og skilvirkri aðferðafræði kolefnisgjalda. Það að beita boðum og bönnum, skylda til breytinga er nefnilega ekki góð leið, ekki ódýrasta leiðin til að ná árangri. Ódýrara er að hvetja til þeirra og láta einstaklinga eða fyrirtæki finna sjálf út úr því hvernig best er að bregðast við. Þegar kemur að umræðu um hugmyndir ríkisins um hvata til orkuskipta í útgerð munum við þingmenn Viðreisnar auðvitað taka þátt í þeirri umræðu og viðra þessar hugmyndir enn frekar. Í okkar tillögum er sem sagt sérstaklega lagt til að þeir sem losa gróðurhúsalofttegundir á Íslandi sitji allir við sama borð, stóriðjan sem aðrir. Reynslan af þessum gjöldum hefur verið góð. Hún hvetur til minni losunar á ódýrasta mögulegan hátt. Hún dregur úr neikvæðri starfsemi sem við viljum draga úr og er þannig hluti af því að axla þá ábyrgð sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerði að umtalsefni í gær, að Ísland axli ábyrgð á framlagi sínu til kolefnislosunar í heiminum og loftslagsmálum. Hinir skattarnir eða hin gjöldin sem Viðreisn leggur til í tillögum sínum snúa að breytingum á útreikningi veiðigjalds.

Viðreisn hefur að vísu ekki talað fyrir þeirri lausn sem nú er við lýði, hefur talað fyrir annarri lausn sem svokallaðri markaðslausn en nú búum við við það að til er löggjöf um veiðigjöld sem í sjálfu sér er góðra gjalda verð þó að á henni séu ákveðnir ágallar sem Viðreisn hefur lagt til að verði bættir. Sjávarútvegur á Íslandi er fyrst og fremst rekinn af lóðrétt samþættum fyrirtækjum sem þýðir að stærstur hluti viðskipta með fisk fer í gegnum eitt og sama fyrirtækið, að fyrirtækið er kannski ekki að selja fisk en að færa til fisk innan eigin samstæðu. Hvernig á að reikna út verð á þeim fiski? Þetta hefur verið deiluefni lengi milli útgerðar og sjómanna vegna þess að laun sjómanna byggja á þessari verðlagningu. Við erum með kerfi í kringum það. Ákveðnar fisktegundir eru háðar opinberri verðlagningu, verði sem Verðlagsstofa skiptaverðs ákvarðar. Tilfellið er hins vegar að rýni menn reglur Verðlagsstofu skiptaverðs um hvernig þetta verð er metið kemur í ljós að fyrir sumar tegundir fisks og ákveðna meðferð fisks er það verð skipulega vanmetið, þ.e.a.s. er að jafnaði lægra heldur en verð á fiskuppboðum. Þess vegna er þetta raunverulega ekki verð. Þetta er einhvers konar uppgjörstala sem verður til í samningum milli útgerðar og sjómanna um útreikning launa og endurspeglar ekki eiginlegt verðmæti fisks. Og hér kemur þá vandamálið: Hver er þá hagnaður sjávarútvegsins? Er hann þessi ímyndaða tala að frádregnum kostnaði eða raunverulegt verðmæti fisksins að frádregnum kostnaði? Það er þetta sem tillaga Viðreisnar snýst um, að þegar lóðrétt samþætt fyrirtæki hefur viðskipti við sjálft sig um fiskverð verði ekki stólað á það fiskverð sem fyrirtækið gefur upp heldur í stað þess beitt verði sem sannarlega er verð í viðskiptum ótengdra aðila, þ.e.a.s. meðalverði á fiskmörkuðum. Nú gætu menn kannski ímyndað sér að þetta væri óveruleg breyting en tilfellið er að það er ekki svo.

Í fyrsta lagi vil ég segja: Sambærileg skattlagning og veiðigjöldin eru á Íslandi finnst í öðrum löndum og í öðrum auðlindageirum. Hvergi sætta ríki sig við að fyrirtækin sjálf gefi upp verðmæti afurða auðlinda, alltaf er miðað við markaðsverð. Þessi mismunur á markaðsverði og opinberu verði hefur verulegar afleiðingar fyrir stofn veiðigjalds og umfang tekna ríkisins af veiðigjöldum. Tökum sem dæmi: Hagnaður í útgerð eins og hann er metinn í útreikningi veiðigjalda var að meðaltali um 17% af veltu á árunum 2016–2020, 20% á árinu 2020 sem liggur til grundvallar veiðigjöldum á þessu ári — 20% hagnaður. Mismunurinn á meðalverði á fiskmörkuðum og meðalverði fisks utan fiskmarkaða var 13%, og þetta virkar allt frekar sakleysislegt, 10% árið 2020 sem liggur til grundvallar veiðigjaldi yfirstandandi árs. Ef metni hagnaðurinn er 20% af veltu og skekkjan í mælingunni er 10% þá er stofn veiðigjalds vantalinn um 50%, það vantar einn þriðja inn í stofninn. Ef tekjurnar eru 100, kostnaðurinn er 80 en tekjurnar eru vantaldar um 10, þá er hagnaðurinn vantalinn um þessa sömu tíu, þ.e. hann fer úr 20 í 30, breytist um 30%. Þannig að óveruleg skekkja, sem virðist vera í mati á verðmæti afla, leiðir til verulegrar skekkju í mati á hagnaði af útgerð.

Það sem við erum að leggja til er í sjálfu sér mjög einfalt. Stofn veiðigjalda á að endurspegla raunverulega afkomu. Hér hefur ítrekað verið sagt í allri umræðu um löggjöf um veiðigjöld að veiðigjöldin eigi að endurspegla afkomu. Þau endurspegla ekki afkomu ef verðið sem notað er við matið á tekjum útgerðarinnar er ekki rétt og vegna þess að hagnaður er óverulegur eða lítill hluti af veltu þá leiðir óveruleg skekkja í mati á veltu til verulegrar skekkju í mati á hagnaði.

Forseti. Eins og ég nefndi áðan er ósjálfbært að taka velferðina að láni. Ég skora á þingmenn meiri hlutans að huga að þessum tillögum — hvernig nýta mætti þær, þ.e.a.s. tillögur um skattlagningu sem veldur sem minnstum skaða, eða, eins og í tilfelli grænna skatta, dregur úr skaða — til að draga úr skuldum ríkisins, minnka hallann á fjárlögum sem er það sama og að byggja upp grundvöllinn undir velferð framtíðarinnar en stuðla um leið að stöðugleika með því að draga úr þeirri þenslu sem er í íslensku samfélagi og styðja þannig allt samfélagið; lækka vexti, auka fyrirsjáanleika, draga úr verðbólguþrýstingi og styðja þannig hag bæði heimila og fyrirtækja.