Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína en hún bar þess merki að hann hefði góða fræðilega þekkingu á málefnum sem hann talaði um og var mjög áhugavert að heyra það sem hann sagði um græna skatta og áhrif þeirra. Einnig var áhugavert að heyra það sem hann sagði varðandi hinn lóðrétta samruna í sjávarútvegi, þann markaðsbrest sem er í uppgjörstölum og varðandi sölu á fiski, útgerðin er nánast að selja sjálfri sér fisk til fiskvinnslu. Mig langar að spyrja varðandi grænu skattana hvort hann þekki til þess að áhrif af grænum sköttum á Íslandi hafi verið mæld? Þetta er náttúrlega liður í orkuskiptum eða hefur áhrif á orkuskiptin núna þegar við erum að fara frá bensínbifreiðum yfir í rafbíla — það eru í sjálfu sér ekki grænir skattar, bílarnir eru skattlausir, rafbílar skattminni og meiri skattur á bensínbílunum. Ég spyr hvort þetta tengist tollum á t.d. orkuskiptunum, t.d. varðandi rafbílana, það eru lægri tollar þar, jafnvel engir tollar, og hvort áhrifin af grænum sköttum hafi verið mæld á Íslandi.

Ég vil einnig koma inn á, sem ég hef fjallað um í ræðu minni hér í fjárlögum varðandi Parísarsamkomulagið og Kyoto-samkomulagið, að Kyoto-samkomulagið verður gert upp á næsta ári, 2023, og það eru engar líkur á að við munum standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar þar og sama á við um Parísarsamkomulagið. Við munum ekki standa við skuldbindingar okkar þar. Ég spyr hvort hv. þingmaður viti hvernig stjórnvöld hafa verið að reyna að ná því markmiði að standa við skuldbindingar. Voru grænir skattar kjarninn í því markmiði eða var þetta stefnulaust hjá stjórnvöldum?