Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:40]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir fyrirspurnina. Þetta hefur verið metið. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands lagði mat á aðgerðir í loftslagsmálum og á áhrif grænna skatta og það er kannski mjög áhugavert, einmitt eins og hv. þingmaður nefndir, að þetta eru raunverulega aðgerðir af tvennum toga, annars vegar grænir skattar og hins vegar grænar niðurgreiðslur sem eru bara eins og hinn hvatinn. Niðurstaða Hagfræðistofnunar var sú að grænir skattar hefðu skilað umtalsverðum árangri. Ég ætla samt ekki að gera of mikið úr honum. Þó að við séum að tala fyrir honum hér þá hefur það sýnt sig að fyrir hvert prósent sem grænir skattar eru auknir dregst losunin saman um 0,35%. Það eru ekki meiri áhrif en það, það eru ekki stórfengleg áhrif. Langtímaáhrifin gætu verið eitthvað meiri en skammtímaáhrifin. Ég get hins vegar upplýst um það að niðurstaða Hagfræðistofnunar varðandi niðurgreiðslurnar á rafbílum er sú að þetta sé óhagkvæmasta loftslagsaðgerð sem völ er á í þeim pakka sem þeir skoðuðu, minnst hagkvæma leiðin og raunar margar aðrar leiðir sem virka miklu betur. Og það verður líka að taka þarna tillit til þess að rafbílar eru dýrir jafnvel þó að þeir hafi verið niðurgreiddir. Þeir eru ekki alveg fyrir alla, duga hugsanlega ekki sem eina samgöngutækið, sem þýðir að þessar niðurgreiðslur hafa líka samkvæmt þeirra niðurstöðum fyrst og fremst runnið til þeirra betur settu í samfélaginu sem auðvitað vekur ákveðnar spurningar um tilgang slíks stuðnings. Sá hópur ætti ekki að þurfa á sérstökum stuðningi ríkisins að halda. Og, ja, þeir hafa skilað árangri. En ég hef sjálfur framkvæmt rannsóknir á losun sjávarútvegsins. Þar eru langsamlega stærstu áhrifin stækkun fiskstofna. Verndun fiskstofna hefur skilað miklu meira í að draga úr losun heldur en skattarnir.