Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem ég fékk, mér fannst það ansi fróðlegt, þ.e. að 1% hækkun á grænum skatti skili sér í 0,35% minni losun, það er ekki prósent á móti prósenti. Og einnig fannst mér fróðlegt að heyra að rafbílavæðingin hafi raunverulega ótrúlega lítil áhrif en sé fyrst og fremst fyrir efri stéttir samfélagsins, sé ekki fyrir þá fátækustu, að þeir sitji eftir með slæmt samviskubit og keyri áfram um á bensínbílum. Er hv. þingmaður með einhverja lausn við þessu vandamáli til að þeir verr settu í samfélaginu geti þá tekið þátt í þessum orkuskiptum en séu ekki út undan hvað það varðar?

Mér finnst þetta mjög áhugavert og við í Flokki fólksins höfum barist fyrir betri kjörum öryrkja og aldraðra og fátækasta hluta samfélagsins. Ég get ekki séð annað en að rafbílavæðingin sé ekki fyrir þann hóp sem við erum að berjast fyrir. Ég velti því fyrir mér hvort hann viti hvernig hægt er að fá þennan hóp til að taka þátt í orkuskiptunum. Það væri gaman að heyra hans álit á því. Mér heyrist að hann hafi stundað rannsóknir á þessu máli.

Í seinni hluta seinna andsvarsins langar mig að spyrja út í lóðréttan samruna í sjávarútvegi — ég er mikill áhugamaður um sjávarútveg, og sérstaklega frjálsar handfæraveiðar sem ég tel umhverfisvænustu veiðarnar — og þann markaðsbrest sem á sér stað. Lausnin varðandi þennan lóðrétta samruna sem er raunverulega það að útgerðin er að selja sjálfri sér fisk til vinnslu — ég hef haft hugmynd um skyldu til að setja hluta af aflanum á markað. En þarf þá að brjóta fyrirtækin upp? Þarf þá að aðskilja fiskveiðarnar frá fiskvinnslunni? Hver er lausnin til að það komi rétt markaðsverð hjá útgerð sem er bæði með fiskvinnslu og fiskveiðar?