Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:45]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka aftur fyrir mjög skynsamlegar spurningar. Við erum ekki lengur að tala um áherslumál Viðreisnar varðandi fjárlög eða mína ræðu heldur meira almennt um aðgerðir í loftslagsmálum. En það er alveg ljóst að það hefur skort vilja til að koma með raunhæfar lausnir. Raunhæfu lausnirnar sem nágrannalönd okkar hafa fyrst og fremst beitt snúa að því að bæta almenningssamgöngur. Bættar almenningssamgöngur eru raunverulega það sem skilar mestu. Hér hefur ekki verið vilji til að horfa á almenningssamgöngur sem lausn og það er mjög mikilvægt að átta sig á því að þú getur hækkað skatta á eldsneyti mjög mikið áður en það fer að hafa eiginleg áhrif á flæðið yfir í almenningssamgöngur ef almenningssamgöngurnar sem eru fyrir eru miklu lakari valkostur en það að taka bílinn. Þú þarft að byrja á að laga almenningssamgöngurnar til að það sé raunverulegur valkostur. Til þess hefur skort vilja.

Varðandi aðskilnað veiða og vinnslu þá held ég að margt tali fyrir tillögu þingmannsins um að hluti aflans fari á markað. Eiginlegur lagalegur aðskilnaður veiða og vinnslu — ég er persónulega efins um þá lausn. Hún hefur verið farin í Noregi, þeir hafa mjög lengi haft aðskilnað veiða og vinnslu frá 1956. Reynslan af því er ekki góð og það hefur raunverulega með það vandamál að gera að fiskur er vara sem skemmist hratt og það er nauðsynlegt að tengja saman veiðar og vinnslu ef þú ætlar að tryggja að hráefnið berist á réttum tíma til rétts aðila. Hvort hins vegar sé nauðsynlegt að gera kröfu um að hluti aflans fari á markað svo að við höfum raunverulegt verð á honum til að miða við, t.d. í gjaldtöku í sjávarútvegi, er annað mál.