Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Daða Má Kristóferssyni fyrir hans ræðu. Það eru þessir grænu skattar, mig langar að velta fyrir mér á hvaða leið við erum í því ferðalagi. Við erum að selja þjóðum hreinlætisvottorð, græða á því, láta skrá á okkur kjarnorku, kol og ég veit ekki hvað. Mér finnst það arfavitlaust, það getur ekki hafa verið tilgangurinn með því að taka á loftslagsvandanum.

En það er annað sem ég er búinn að vera að velta fyrir mér og botna eiginlega ekkert í lengur, það er þegar verið er að fanga koltvísýringinn og dæla honum niður uppi á Hellisheiði. Þetta voru 12.000 tonn, held ég, á ári. Nú eru þeir að fara að setja niður verksmiðju í Straumsvík og ætla að dæla niður 250.000 tonnum á mánuði, þremur milljónum tonna á ári, flytja bara allt frá Evrópu og dæla því hér niður; og þarna eru vatnsból og fleira. Ég var einmitt að hugsa um þetta um daginn.

Mér var bent á að þeir væru ekki með snjóblásara og svona uppi í Bláfjöllum vegna þess að þeir hefðu áhyggjur af að menga vatnsbólin ef þeir væru að búa til gervisnjó. Ég spyr mig bara hvernig hægt er að hafa áhyggjur af því en vera á sama tíma tilbúinn til að gera eitthvað svona stórtækt. Við vitum að þetta hefur áhrif á jarðlögin, það koma jarðskjálftar þegar verið er að dæla svona niður. Ég spyr mig bara: Hvernig í ósköpunum verður líft í Hafnarfirði þegar allt er komið á fulla dælingu? Hvernig líst hv. þingmanni á þetta og telur hann að þetta sé að virka? Við vitum að eitt eldgoss er t.d. fljótt að þurrka út ávinninginn.