Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:50]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar, báðar mjög góðar. Hugmyndin að upprunavottorðunum snerist um það að gerð er krafa innan Evrópu um að ákveðinn hluti orkunnar sem ríki framleiða sé umhverfisvænn en ekki eru öll ríki í aðstöðu til þess. Ef við tökum ríki af sambærilegri stærð og Ísland og heldur stærri, Lúxemborg, þá hafa þau í sjálfu sér ekki mikil tækifæri til að framleiða endurnýjanlega orku. Þá var hugmyndin sú að það væri ósanngjarnt að leggja kröfur á þá sem geta illa gert nokkurn skapaðan hlut og það væri þá frekar þannig að það yrði mögulegt fyrir önnur ríki að taka á sig skyldur Lúxemborgar í þessu tilfelli. Mér finnst þetta í sjálfu sér ekki vandamál og þær tekjur sem af þessu koma finnst mér bara eðlilegar.

Menn geta auðvitað spurt sig: Á ríki eins og Ísland þar sem öll orkan er endurnýjanleg og ekkert annað er á borðinu en að framleiða meira af þessari endurnýjanlegu orku — þarf að hvetja það til að búa til meiri endurnýjanlega orku? Menn geta auðvitað sagt að það sé óþarfi. En á móti kemur að hugmyndin er sú að lækka kostnaðinn á endurnýjanlegri orku og það held ég að sé jákvætt. Ég er í sjálfu sér ekkert mótfallinn því.

Varðandi starfsemi Carbfix er best að ég upplýsi það hér að ég sit í stjórn Carbfix. Ég tel raunar að þar séu mjög áhugaverðir hlutir á ferðinni. Maður verður að átta sig á því að starfsemi Carbfix mun ekki koma í staðinn fyrir samdrátt í losun heldur bara vera einn partur af púslinu sem við þurfum að raða saman. En varðandi áhyggjur af grunnvatni þá eru þær óþarfar vegna þess að það er borað niður fyrir grunnvatn, þ.e.a.s. niður fyrir yfirborðið og ofan í raunveruleg jarðhitakerfi sem eru fyrir neðan, það þarf hita til að þessi hvörf eigi sér stað. Ég skil alveg áhyggjur af jarðskjálftum en ég held að þetta sé ekki sérstakt áhyggjuefni.