Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vissi ekki að hv. þingmaður tengdist þessu, ég hafði bara ekki hugmynd um það, og það er bara frábært. Þá er líka spurningin: Hvernig er þetta hugsað? Hvernig á að greiða fyrir þetta? Ef einhver kemur og losnar við koltvísýring, t.d. Sviss, fær hann þá mengunarkvóta í staðinn, verður hann seljanlegur? Hvar lendir þessi kostnaður á endanum? Er það ekki eins og með allt annað að það lendir kannski á þeim verst settu í þjóðfélaginu? Við getum tekið sem dæmi rafmagnið í heimahúsum okkar. Sonur minn var að flytja í íbúð og hann þurfti að velja sér aðila til að kaupa rafmagn af, annars yrði hann bara settur á þann dýrasta. Þarna er bara mælir. Þarna erum við búin að búa til millilið sem var aldrei til staðar og þarf ekkert að vera til staðar. Ég hugsa að það væri bara þrælsniðugt að stofna raforkusölu, setja upp mæli og svo tikka bara peningarnir í kassann. Ég óttast að við séum að búa til milliliði sem valda kostnaði.

Við vitum, eins og hv. þingmaður talaði um í sambandi við veiðigjöldin, að það er ekkert rétt reiknað. Við sjáum þetta út um allt samfélagið, gagnvart öryrkjum, eldri borgurum. Oft er, hvað á maður segja, happa og glappa aðferðin notuð frekar en raunverulegur útreikningur í þeim tilgangi að bæta kjör fólks, eins og með hagnað í sjávarútveginum sem er eiginlega bara umræða út af fyrir sig.