Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:54]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka aftur fyrir spurninguna. Viðskiptamódel aðila sem eru í dag að binda kolefni og farga því — ég myndi raunar sjálfur segja að eitt af örfáum fyrirtækjum í heiminum sem raunverulega fargar kolefni, af því að það er varanlega bundið í steindum og verður hluti af jarðskorpunni, það sem er fyrirsjáanlega eftir er Carbfix. En þeir sem hafa stundað þessa starfsemi eru fyrst og fremst að gera það sem valkost við að greiða kolefnisgjöld. Það er valkosturinn sem fyrirtækið stendur frammi fyrir. Get ég safnað koltvísýringnum saman, geymt hann eða fargað honum með einhverjum hætti, dregið þar með úr losun og dregið úr kostnaði vegna kolefnisgjalda?

Ég held þess vegna að þessi starfsemi þurfi í sjálfu sér ekki að bitna á neinum. Það er á margan hátt ákveðin jákvæð staða sem Ísland er í vegna þess að í þessa starfsemi sem Carbfix stundar þarf vatn og basalt og við eigum nóg af vatni og basalti. Ég tel raunar að þetta sé að mestu leyti jákvætt. Ég vil samt undirstrika: Hér er ekki um lausn á loftslagsvandanum að ræða heldur hluta af lausn. Það sem þarf að gerast miklu víðar er samdráttur í losun. Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum, ef við ætlum að gera meiri háttar breytingar á skattkerfinu, ef grænir skattar eiga t.d. að taka yfir hlutverk tekjuskatta eða virðisaukaskatts, að setjast niður og kanna hvaða áhrif það hefur á tekjudreifingu, hvaða breytingar verða á ráðstöfunartekjum ólíkra tekjuhópa við slíka breytingu. Minni skref eins og þau sem við erum að leggja til, sem raunverulega snúa bara að stóriðjunni, þurfum við kannski ekki eins mikið að ræða en einhverja meiri háttar breytingu í þessa átt þyrfti virkilega að ræða, þannig að þetta er góður punktur.