Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:57]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Í tillögu meiri hlutans í fjárlagafrumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að frítekjumark atvinnutekna til örorkulífeyrisþega hækki í 200.000 kr., og því ber að fagna. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt skref í áfanga að bættum kjörum og atvinnuþátttöku öryrkja. Þetta er sama tillaga og Flokkur fólksins og stjórnarandstöðuflokkarnir lögðu fram á síðasta ári fyrir fjárlög þessa árs en var þá hafnað af meiri hluta Alþingis, þingmeirihlutanum, ríkisstjórninni. Það hefur ekkert breyst á þessum tíma, ekki neitt. Í dag eru sömu forsendur og í fyrra fyrir því að hækka frítekjumark upp í 200.000 kr.

Þingmeirihlutinn rökstyður þetta á þann veg að þetta sé fyrsti áfangi í heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem feli í sér lengingu greiðslutímabils endurhæfingarlífeyris og verði frumvarp þess efnis lagt fyrir á haustþingi 2022. Hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna sé hluti af heildarendurskoðuninni og mikilvægt skref til að ryðja úr vegi hindrunum fyrir atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega. Þingmeirihlutinn samþykkir að hinar margumræddu skerðingar vegna atvinnutekna öryrkja séu hindrun fyrir atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega, það eru þeirra eigin orð.

Ég hef sagt það áður í ræðu hér að þessar skerðingar gangi í bága við atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa.“ — Allir á líka við um öryrkja og aldraða. — „Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Enda krefjast almannahagsmunir þess — staðreyndin er sú að almannahagsmunir krefjast þess ekki að skerðing almannatrygginga vegna atvinnutekna öryrkja eigi sér stað. Skerðingin er ekki á grundvelli almannahagsmuna, það er alveg kristaltært. Það má vera að það hafi verið réttlætanlegt að skerða þetta í sjálfu hruninu, þegar íslenskt samfélag var að bregðast við hruninu, einu mesta efnahagsáfalli Íslandssögunnar, þegar allt fór á hvolf við hrun þriggja stærstu banka samfélagsins, en efnahagsreikningur þeirra var tólf sinnum efnahagsreikningur íslenska ríkisins og íslensks samfélags. Þá má vel vera að það hafi verið almannahagsmunir fyrir þessum skerðingum en það er ekki svo í dag og hefur ekki verið undanfarin ár. Þær hindranir á atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega sem þingmeirihlutinn talar um, sem meiri hluti fjárlaganefndar talar um, ganga gegn atvinnufrelsi stjórnarskrárinnar, sem kveðið er á um í stjórnarskránni, sem varið er í stjórnarskránni, svo að það liggi alveg fyrir. Þess vegna er svo mikilvægt að við hér á Alþingi tökum okkur saman og afnemum þessar tekjuskerðingar og förum að tillögum Flokks fólksins um að það verði engar skerðingar á almannatryggingum í tvö ár og ekki verði gert nýtt örorkumat á öryrkja sem fer út á vinnumarkaðinn, finnur sér starf við hæfi, fullt starf, hlutastarf, það starf sem hann kýs að velja sér, fyrstu tvö árin. Það er grundvallaratriði.

Í fyrra var samþykkt að atvinnutekjur aldraðra gætu verið 200.000 kr. á mánuði án skerðinga, sem var vel, en þetta þyrfti að vera hærra. Rök fyrir því eru að við búum við þriggja stoða kerfi í almannatryggingum, þ.e.a.s. séreignasparnaðinn, lífeyrissjóðsgreiðslur og almannatryggingar. Þessi almannatryggingastoð er nánast orðin að fátækrahjálp, hún nær ekki til stórs hluta þeirra sem þess þurfa. Ég vil varðandi þennan hluta einnig fjalla um mikilvægi þess að eingreiðslurnar sem við fjölluðum um hér í morgun, og lutu að eingreiðslu til öryrkja fyrir jólin, skatta- og skerðingarlaust, 60.300 kr., nái líka til aldraðra. Það eru meiri rök fyrir því, jafngóð rök ef ekki meiri, að aldurshópurinn 67 ára og eldri fái líka eingreiðslu fyrir jólin. Þetta eru oft öryrkjar sem eru orðnir 67 ára og eldri og fara þá, skv. 17. gr. almannatryggingalaga, á ellilífeyri og þá lækka bætur þeirra. Ellilífeyrisbætur eru oft og tíðum lægri en örorkubætur. Þetta eru oft konur sem hafa starfað heima og hafa ekki greitt í lífeyrissjóð. Ég kalla aftur eftir því að fá rökin fyrir því af hverju þingmeirihlutinn samþykkir ekki að þessar eingreiðslur nái líka til aldraðra fyrir jólin, 60.300 kr., en við í Flokki fólksins, og hv. þm. Inga Sæland formaður, lögðum fram breytingartillögu þess efnis hér í morgun.

Varðandi aðra þætti í frumvarpinu vil ég vekja athygli á því að í fréttatilkynningu sem birtist í gær frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu kemur fram að Kvikmyndasjóður fái 250 millj. kr. viðbótarframlag árið 2023. Í fréttatilkynningunni segir:

„Við 2. umr. fjárlagafrumvarps má vænta þess að lagt verði til að 100 milljónir kr. verði lagðar til Kvikmyndasjóðs auk þess sem menningar- og viðskiptaráðuneytið mun leggja fram 150 millj. kr. viðbótarframlag.“

Ég kalla eftir því, virðulegur forseti, að þingheimur verði upplýstur um þessa breytingartillögu, hvenær þetta mun koma til 2. umr. og hvort ekki verði lagt fram skjal um þetta því að það hefur ekki verið gert. Þetta er fréttatilkynning sem var inni á vef Stjórnarráðs Íslands í gær.

Flokkur fólksins er með breytingartillögu hvað þetta varðar og er það fjórða breytingartillaga okkar við fjárlagafrumvarpið. Þar er lagt til að framlag til Ríkisútvarpsins, RÚV, lækki um 290 millj. kr. Þess í stað hækki framlög til Kvikmyndasjóðs um sömu fjárhæð. Ástæðan er sú að við hækkun útvarpsgjalds vegna verðlagsbreytinga, um 7,7% milli ára, mun framlag ríkisins til RÚV hækka um 290 millj. kr. Við viljum að þeir peningar fari til Kvikmyndasjóðs. Það er nú þannig að Ríkisútvarpið, sú sérstaka stofnun, fær sjálfkrafa hækkanir út af verðbótum og ef Íslendingum fjölgar. Ef fólki sem býr á Íslandi fjölgar þá hækka framlög til RÚV. Þetta stendur í lögum um RÚV. Ég minni á að í lögum um almannatryggingar segir líka, með leyfi forseta:

„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs“.

Undanfarinn áratug og lengur hafa stjórnvöld virt 69. gr. laganna að vettugi. Ef litið er til baka má sjá að munurinn á þróun launavísitölu og þróun fjárhæða almannatrygginga er upp á tugi prósenta. Þetta er sú kjaragliðnun sem Flokkur fólksins hefur barist gegn allt frá stofnun. Ríkissjóður, ríkisvaldið, virðir að vettugi 69. gr. grein almannatryggingalaga sem á að tryggja að greiðslur almannatrygginga verði í samræmi við launaþróun en aldrei lægri og hækki aldrei minna en verðlag. Þetta er til fátækasta hluta samfélagsins, öryrkja og aldraðra. Þetta er virt að vettugi.

En viti menn, lög um Ríkisútvarpið eru virt hvað þetta varðar, varðandi hækkanir, þ.e. í 7,7% verðbólgu, en ekki varðandi öryrkja og aldraða. Ég minni á að í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir eigi rétt á aðstoð vegna elli, sjúkleika, örorku og örbirgðar. Þetta sýnir mismuninn og viðhorf ríkisvaldsins, viðhorf stjórnvalda, til öryrkja og aldraðra.