Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talaði hér um atvinnufrelsi samkvæmt stjórnarskrá sem er gott og nauðsynlegt og blessað og allt þar fram eftir götunum. Ég velti samt fyrir mér hvort það sé ekki pínu öfugsnúið sjónarhornið sem hv. þingmaður er að vísa til. Sá hópur sem hann fjallaði um í ræðu sinni hefur atvinnufrelsi, hefur frelsi til að sækja atvinnu. Geta er hins vegar dálítið annað mál, því miður, og þess vegna erum við með lög um almannatryggingar til að dekka þann miska og það sem því tengist, sem sagt til að dekka tekjur. Ég veit ekki hvernig það takmarkar frelsið gagnvart stjórnarskrá að bætur, launin, vegna örorku skerðist. Ég er bara að reyna að átta mig á því hvernig það sjónarhorn að stjórnarskrárgreinin um atvinnufrelsið sé skert kemur inn í myndina. Það er verið að skerða lög um almannatryggingar, sem má alveg deila endalaust um hvort sé málefnalegt eða ekki, en ég skil ekki hvernig það gengur á stjórnarskrárákvæðið um frelsi til atvinnu. Það er, held ég, ekkert umdeilt að allir hafi frelsi til atvinnu. Síðan kemur annað sem er geta til að stunda atvinnu, og það á að dekka í þessum lögum um almannatryggingar — ef hv. þingmaður vildi aðeins koma inn á þetta. Mér fannst það vera pínu öfugt sjónarhorn að með því að skerða með tilliti til laga um almannatryggingar sé einhvern veginn verið að skerða atvinnufrelsi fólks. Ég átta mig ekki á því.