Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta svar. Það er aðeins skýrara svona. Ég átta mig samt ekki á því að það skerði endilega réttinn meira þó að hvatinn sé tvímælalaust þarna að togast á og innri löngun fólks til að ganga á tekjur sínar, rétt sinn, varðandi almannatryggingar eða félagslega aðstoð og réttinn til atvinnu. Þetta togast á. Það er ekki verið að ganga á rétt fólks til að sinna atvinnu heldur er verið, eins og það var orðað, að letja það til þess eða koma í veg fyrir það eða eitthvað svoleiðis. Rétturinn til að fara að vinna er samt til staðar, en ríkið er búið að setja þannig hvata að það er ekkert rosalega gáfulegt að gera það. Vandinn liggur kannski þar, ef eitthvað. Við Píratar höfum talað um skilyrðislausa grunnframfærslu til að koma til móts við ákveðin vandamál, ákveðnar fátæktargildrur. Þetta er fátæktargildra. Þarna er búið að setja fólk í ákveðnar girðingar og ef það hreyfir sig út úr þeim er því refsað fram og til baka. Það er ekki verið að ganga á rétt þeirra, þau mega fara út fyrir girðinguna, en það er ekkert rosalega gáfulegt, ef hv. þingmaður áttar sig á því hvað ég er að segja varðandi það og hversu sniðugt það er. Það er bara mjög ósniðugt en rétturinn til að gera ósniðuga hluti er í sjálfu sér til staðar. Við höfum talað mikið um að við þurfum að útrýma svona fátæktargildrum þannig að það sé bara gáfulegt að gera það sem fólk getur, vill gera. Á þann hátt höfum við kannski einmitt viljað hjálpa fólki við að nýta rétt sinn til atvinnuþátttöku í staðinn fyrir að segja: Það er ekkert rosalega sniðugt, þú mátt það alveg, gjörðu svo vel, en við ætlum samt að sparka aðeins í rassinn á þér ef þú gerir það.