Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:14]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar sitt. Ef við skoðum þetta út frá atvinnufrelsi og réttinum til aðstoðar — 76. gr. fjallar um rétt til aðstoðar vegna örorku, örbirgðar, elli o.s.frv. Atvinnufrelsisákvæðið er um það að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa, hitt er um að öllum skuli tryggður réttur. Hv. þingmaður talaði um hvata. Hvatinn til að vinna gengur út á það að sjá um sig sjálfur, að sjá sjálfum sér farborða, að afla sér lifibrauðs en líka að vera þátttakandi í samfélaginu, virkur í samfélaginu. Freud sagði að vinnan væri grundvallaratriði til þátttöku í mannlegu samfélagi, það er grundvallaratriði. Ég lít á það sem frelsi eins og segir í stjórnarskrá, ekki hvata. Meiri hluti fjárlaganefndar talar um hindrun fyrir atvinnuþátttöku, hindrun þess frelsis. Rétturinn til aðstoðar vegna örorku á ekki að takmarka frelsið. Ef þú getur unnið þá getur þú unnið. Það er bara þannig og það er það sem öryrkjar sjálfir verða að finna út úr með því að prófa sjálfir, ekki fara í eitthvert starfsgetumat sem sérfræðingar eru að meta og bla, bla, bla. Einstaklingurinn sjálfur á að hafa frelsi til að fara út á vinnumarkað, stunda þá vinnu sem hann kýs. Það segir orðrétt þannig í atvinnufrelsisákvæðinu. En rétturinn til aðstoðar á ekki að skerða þetta frelsi. Það er málið. En það sem mér finnst áhugavert er, og það kom fram í umræðunni áðan, að það virðist vera að þingmeirihlutinn og meiri hluti fjárlaganefndar og ríkisstjórnin sjái að þetta hindri atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega. Það segir a.m.k. í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Það er grundvallaratriði að þessum hindrunum sé rutt úr vegi og það er það sem Flokkur fólksins er að berjast fyrir og vonandi Píratar líka og aðrir stjórnarandstöðuflokkar.