Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:17]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár og eftir því sem þeirri umræðu vindur fram fjölgar umræðuefnunum, eftir því sem maður skoðar þetta allt betur. Mig langar til að lesa hér örstutt upp úr stefnu ákveðins stjórnmálaflokks í efnahagsmálum. Svo kemur í ljós hvert samhengið er þegar því er lokið, með leyfi forseta:

„Áherslur Vinstri grænna í ríkisfjármálum taka mið af grunnstefnu hreyfingarinnar um öflugt velferðarkerfi á Íslandi og að vöxtur sé sjálfbær og gangi ekki á auðlindir. Mikilvægur grunnur að því er að skattkerfið sé skilvirkt, réttlátt, grænt, jafni tekjur og eyði aðstöðumun. Ríkjandi hugmyndafræði undanfarinna áratuga um óheftan markað, umfangsminna hlutverk ríkisins og lága skatta á hæstu tekjur hefur skilað sér annars vegar í minnkandi hagsæld og í þeirri staðreynd að hagsældin skilar sér misjafnlega til almennings þannig að ójöfnuður eykst. Ójöfnuðurinn hefur ekki aðeins í för með sér minnkandi hagsæld heldur einnig vaxandi kynþáttahyggju og jaðarsetningu minnihlutahópa. Skattaskjól og aflandsfélög hafa síðan verið sérstakur vandi fyrir hagsæld sem og alþjóðleg skattasamkeppni sem gerir atvinnurekendum kleift að flytja fyrirtæki sín milli landa.“

Áfram heldur í stefnu viðkomandi stjórnmálaflokks, með leyfi forseta:

„Ríkisfjármál eru í raun reikningshald samneyslu og samhjálpar. Þau verða að samræmast markmiðum samfélagsins og því er það pólitísk ákvörðun hver útgjöldin eiga að vera og hverjar tekjurnar. Skattkerfið byggist því á félagslegum og efnahagslegum markmiðum. Að mati sífellt fleiri fræðimanna er skattkerfið langáhrifamesta tæki samfélagsins til að auka jöfnuð í samfélaginu. Jöfnuður er í sjálfu sér ekki aðeins réttlætismál heldur líka mikilvægt hagstjórnarmarkmið. Um það vitnar fjöldi alþjóðlegra rannsókna og skýrslna sem allar sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti. Efnahagsstefna sem dregur úr ójöfnuði leiðir því ekki einungis til réttlátara þjóðfélags heldur verða þjóðfélögin einnig auðugri. Öflugt tæki í þeirri vinnu er að styrkja enn betur kynjaða hagstjórn og kynjaða fjárlagagerð. Meiri jöfnuður leiðir því til sanngjarnari þjóðfélaga og styrkir hagkerfin.“

Hvers vegna er ég að vekja máls á þessu? Jú, í grein sem birtist í Kjarnanum í dag er fjallað um svar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Loga Einarssyni um tekjur og eignir landsmanna árið 2021. Svarið er gríðarlega áhugavert og hefur það verið greint í þessari grein í Kjarnanum. Fyrirsögn greinarinnar er, með leyfi forseta:

„Ríkasta 0,1 prósentið hefur ekki tekið til sín stærri hluta af tekjukökunni síðan 2007.“

Síðan segir:

„Þær 244 fjölskyldur sem höfðu mestar tekjur á síðasta ári þénuðu alls 36 milljarða kr. í fjármagnstekjur á árinu 2021. Það voru 20 prósent af öllum slíkum tekjum sem urðu til á því ári. Hópurinn þénaði 4,2 prósent af öllum tekjum sem urðu til í landinu, en það hlutfall hefur ekki verið hærra síðan á hátindi bankagóðærisins fyrir 15 árum síðan.“

Hvers vegna vek ég máls á þessu? Jú, vegna þess að það er greinilegt að það er á fleiri sviðum en bara í útlendingamálum, umhverfismálum, jafnréttismálum, lögreglumálum og öðrum málum þar sem orð og gjörðir fara ekki saman hjá ákveðnum flokkum í ríkisstjórn.

Nú er það, eins og ég las upp hér rétt áðan, eitt grundvallaratriði í stefnu Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs í efnahagsmálum að tryggja jöfnuð, að auka jöfnuð. En ég vek athygli á því að árið 2021 og árið þar á undan og enn þann dag í dag er Vinstrihreyfingin – grænt framboð í ríkisstjórn. Því skýtur það svolítið skökku við að á sama tíma sé ójöfnuður að aukast og þetta vekur auðvitað upp áhyggjur.

Ég ætla að halda aðeins áfram í þessari grein vegna þess að hún er áhugaverð að mörgu leyti og vekur upp margar spurningar tengdar því sem við höfum verið að ræða hér á síðustu vikum, með leyfi forseta:

„Hlutfall ríkasta eins prósents landsmanna af heildartekjum jókst úr 7,9 prósent í tíu prósent í fyrra. Það hefur ekki verið hærra síðan á árinu 2008 og utan bankagóðærisáranna 2003 til 2008 hefur hópurinn aldrei tekið til sín stærri sneið af tekjukök­unni innan árs á Íslandi.“

Kjarninn greindi frá því í júlí að í greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum, sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi 22. júní síðastliðinn, hefði komið fram að þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur á síðasta ári hefðu tekið til sín 81% allra fjármagnstekna einstaklinga á árinu 2021. Samkvæmt þeim tölum sem birtar voru í gær liggur fyrir að þeim var verulega misskipt milli efstu tíundarinnar. Ríkasta eina prósentið tók til sín 31% af tekjum vegna fjármagns innan þeirra tíundar á síðasta ári. Það er því alveg ljóst að áhrif þeirrar efnahagsstefnu sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð er að vinna samkvæmt í þessari ríkisstjórn er ekki í samræmi við stefnu flokksins.

Ég velti því fyrir mér eftir sem áður, og hef gert í langan tíma, hvað það er sem þessi tiltekni stjórnarflokkur er að fá fram í þessu stjórnarsamstarfi. Í umræðu um fjárlögin hefur það svolítið blasað við að ekki er verið að horfa til allra þeirra sjónarmiða sem ætla mætti þegar þetta er stefna flokksins. Ég ætla að halda örlítið áfram, ég á mjög stuttan tíma eftir en hvet fólk til að kynna sér þessa grein og kynna sér þetta svar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn hv. þm. Loga Einarssonar sem var birt á vefnum bara nýlega.

Ég ætla að halda aðeins áfram. Það kemur fram í svarinu að fjármagnstekjur dreifist mun ójafnar en launatekjur, að fjármagnstekjur lendi mun frekar hjá tekjuhæstu hópum landsins sem eiga mestar eignir, alls níu prósent þeirra sem telja fram skattgreiðslur á Íslandi fá yfir höfuð fjármagnstekjur. Fjármagnstekjuskattur er líka 22 prósent, sem er mun lægra hlutfall en greitt er af t.d. launatekjum, þar sem skatthlutfallið er frá 31,45 til 46,25 prósent eftir því hversu háar tekjurnar eru. Þetta þýðir að ráðstöfunartekjur efsta tekjuhópsins hækkuðu mun meira hlutfallslega en annarra tekjuhópa ofan á það að tekjur þess hóps voru meiri fyrir. Krónunum í vasa þeirra sem höfðu miklar fjármagnstekjur fjölgaði því umtalsvert meira en í vasa þeirra sem þáðu fyrst og síðast launatekjur á síðasta ári.

Þá tel ég ástæðu til þess að grípa aftur niður í yfirlýsta stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, með leyfi forseta:

„Þó að tekjujöfnuður sé meiri á Íslandi en víðast hvar annars staðar er eignastaðan mjög ójöfn. Ríkustu tíu prósentin eiga um þrjá fjórðu allra eigna en eignaminnstu 30 prósentin eiga nánast ekkert eða minna en ekkert. Aukin einkavæðing hefur svo aukið þessa misskiptingu eigna þar sem eignir hverfa úr almannaeign og verða eignamestu aðilunum að féþúfu. Til að sporna gegn þessari misskiptingu ber að nýta skattkerfið til að jafna eignastöðu. Þá sýna rannsóknir líka að flutningur fjármagns með því að draga úr tekjumun og styrkja stöðu hinna tekjulægstu skilar sér hratt og örugglega út í samfélagið og eykur hagsæld.“

Nú er ég að falla á tíma í þetta skipti í þessari ræðu minni en það sem ég er að benda á hér er, það sem er augljóst, að það fer ekki saman hljóð og mynd í verkum þessarar ríkisstjórnar. En einnig vekur þetta upp ákveðnar spurningar tengdar sölunni á Íslandsbanka sem fór fram nýverið og er óhjákvæmilegt að tengja þessi mál saman. Fyrir liggur að til að þessi fjárlög geti staðist þarf að selja fleiri banka og er ekki enn útrætt á þessu þingi hvernig ganga eigi úr skugga um að sú sala fari fram í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.