Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:27]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti, hv. þm. Andrés Ingi Jónsson. Ég þakka síðasta ræðumanni, hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, fyrir sína ræðu og vitundarvakningu. Við erum að ræða fjárlögin og ýmsar hliðar þeirra og auðvitað er það svo, í jafn breiðri ríkisstjórn og hér hefur setið í fimm ár, að afstaðan til kapítalsins, fjármagnsins, er ólík. Hér á Íslandi stóð um áratugaskeið barátta á milli þeirra sem aðhylltust sovéska módelið og þeirra sem aðhylltust ameríska módelið og einhvers staðar mættumst við á miðri leið. Í þessu speglast auðvitað hin sígilda jafnvægislist milli ábyrgðar og frelsis til athafna og þess vegna verðmæta- og auðssköpunar og þess sem er samfélagsleg ábyrgð okkar allra, að sjá til þess að enginn líði skort í jafn ríku landi og við byggjum.

Ég tel að mörgu leyti farsæld okkar fólgna í því hvað við erum heppin. Við erum í landi sem hefur alla burði til að láta öllum líða vel og jafnvægislistin felst í því að um leið og við veitum mönnum frelsi til að græða og auðgast og allt það þá sjáum við til þess — og ég spyr hv. þingmann hvort hún sé mér ekki sammála um að það sé stærsta verkefni samfélagsins — að hér búi enginn við fátækt og skort til skemmri eða lengri tíma.