Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:30]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni fyrir andsvarið. Jú, ég er sannarlega sammála og það voru lykilorð sem hv. þingmaður nefndi hérna, að við höfum efni á því að láta öllum líða vel í samfélaginu. Við erum heppin, við erum lánsöm, við erum mokrík þjóð, það er ekkert hægt að neita því. Það er nóg til, líkt og titill skýrslu frá ASÍ, sem kom út fyrir ekki alllöngu, ber með sér. Ég er sammála því að það hafi verið farsælt fyrir íslenska hagstjórn að fara þennan milliveg sem við erum að tala um og við höfum sýnt það. Þegar maður talar við fólk í Bandaríkjunum, þar sem þetta félagslega módel sem við erum með á Norðurlöndunum er mikið talað niður, er oft gott að geta bent á það hversu vel gengur á Norðurlöndunum. Sömuleiðis hefur gagnrýnin sem hefur verið á bæði þessi hagkerfi sannast og afsannast um leið með því að við förum þennan milliveg. Mannlífið er náttúrulega flókið. Efnahagsmál og hagfræði eru ekki raunvísindi. Hagfræði er í raun félagsvísindi og það hvernig fólk bregst við hinum ýmsu aðstæðum í efnahagslífinu hefur bein áhrif á efnahagslífið og það er það sem ég held að hafi verið gríðarlega vanmetið framan af í þróun fræða á þessu sviði. Það sem manni finnst kannski sárast að sjá, eins og mér verður tíðrætt um í þessari pontu, í allri efnahagsstjórn á efnahagssviðinu er að stundum er talað um hagfræði eins og einhvers konar raunvísindi, að þetta séu bara einhverjar staðreyndir og stærðfræði. Það er það ekki. Þetta snýst um forgangsröðun. Þetta snýst ekki bara um það hvað það er æðislegt og frábært og gott að allt fólk sé hluti af samfélaginu og líði vel heldur er það þjóðhagslega hagkvæmt. Það er hagkvæmt fyrir alla, það hefur margsýnt sig. En það endurspeglast ekki jafnmikið í gjörðum ríkisstjórnarinnar, sérstaklega ekki þessarar, og það endurspeglast í fræðunum.