Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:32]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir sín viðbrögð við því sem ég sagði áðan. Við erum sammála um það að við erum í grunninn lánsöm. Verkefni okkar hér er í raun það að spegla hugarþel meginþorra Íslendinga sem er samfélagslega ábyrgt og umhyggjusamt. Ábyrgð í ríkisfjármálum — jú, jú, það þarf að sjá til þess að hægt sé að standa við skuldbindingar og borga það sem þarf að borga og gera út allar þær fjölmörgu stofnanir sem við rekum hér. Fyrst og fremst þarf þó að sjá til þess að manni líði vel með það að vera Íslendingur, beri ekki kinnroða af því að skilja tíund samfélagsins eftir við fátæktarmörk á mestu velmegunartímum. Mér er sama þó að menn græði á tá og fingri og við skattleggjum þá sem vera ber. Ég vil frekar halda slíku fólki hér inni í íslenskri lögsögu en að missa það úr landi en þá með því skilyrði að við látum þann gróða og þann ávöxt af sameiginlegum auðlindum okkar, bæði í hafi og í orkulindum öðrum, sjá um fólkið í landinu þannig að menn sofi áhyggjulaust á nóttunni, geti vaknað vitandi að það er eitthvað til í ísskápnum, eigi fyrir mat handa börnunum og fjölskyldunni, það sé til fyrir bensíni á bílinn ef hann er yfir höfuð til; það sé jafnvel hægt að lyfta sér upp um helgar og á tyllidögum.

Mig langar rétt í lokin að spyrja hv. þingmann hvort það væri ekki prýðishugmynd að sameiginlegur banki okkar, Landsbankinn, verði gerður að samfélagsbanka og hlutabréfum í honum útbýtt til þeirra sem eiga hann, Íslendinga, sem eins konar sárabót fyrir það sem við fórum á mis við í því efnahagshruni sem nú eru 14 ár síðan varð og enn er vofandi yfir okkur í ýmsum myndum. Væri það ekki leið til að sætta fólk við það sem misfarist hefur að gefa því von um betri framtíð með samfélagsbanka sem stendur vörð um samfélagsleg mál?