Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:35]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni aftur fyrir andsvarið; við erum sammála um ýmislegt eins og áður hefur sést. Mér finnst það falleg hugmynd sem hv. þingmaður nefnir hér í lok ræðu sinnar og beinir spurningu að mér. Ég hef einmitt velt mikið fyrir mér á síðustu misserum — og reyndar mun lengur, en það hefur verið mér sérstaklega hugleikið á síðustu misserum, ekki síst í tengslum við umræðuna um sölu á Íslandsbanka og annað og það endurspeglast líka í textanum sem ég las upp hér áðan — misskiptingunni sem við horfum á í samfélaginu í dag. Misskiptingin byggist ekki síst á því að hluti landsmanna kann að braska með fé og hlutabréf og annað slíkt og fjármagnstekjur og fasteignir en þorri landsmanna kann það ekki eða hefur ekki áhuga á því eða hefur ekki tök á því á einhvern hátt. Mér hefur í gegnum tíðina þótt það viðhorf vera ríkjandi, hjá þeim sem eru mér ósammála um hagstjórnarpólitík, að það sé ekkert að því að þau sem hafa áhuga á peningum og áhuga á fjármálabraski eigi rosalega mikinn pening; að þau sem hafi ekki áhuga á því gætu bara sett sig inn í það ef þau vildu verða rík eins og hin. Þetta lýsir, held ég, grundvallarvandamáli í samfélaginu sem er það að það er ekki bara þannig að kerfið okkar sé óréttlátt heldur finnst okkur það í lagi. Fólki finnst í lagi að kerfið sé óréttlátt. Þetta er hugarfarið sem við þurfum að breyta og við þurfum að sammælast um það. Ég held að við séum alltaf að færast nær því. Hvort lausnin sé sú að gera fleirum kleift að taka þátt í fjármálabraskinu með því að úthluta hlutabréfum til almennings, það má vel vera að það sé þáttur í lausninni. Í öllu falli er ég ekki sammála því að það sé í lagi og eðlilegt að útdeiling fjár í samfélaginu sé óréttlát og bara byggð á því hverjir hafa áhuga á því að sitja yfir hlutabréfamörkuðum allan daginn og hverjir ekki. Flest okkar held ég viljum nota tímann okkar til að gera hluti sem kannski skipta meira máli á mannlegan mælikvarða.