Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir ræðu sína og fróðleg svör hér í andsvörum við hv. þm. Jakob Frímann Magnússon. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í tekjuskiptinguna í landinu og það sem hefur verið að gerast á undanförnum árum. Fjármagnstekjur hafa aukist um 120% að raunvirði á tíu árum en atvinnutekjur bara um 53%. Kaupmáttur meðaltekna fjármagnstekna hefur aukist um 85% frá árinu 2011 en í tilfelli meðaltals atvinnutekna þá er hækkunin einungis 31%. Fjármagnstekjur jukust um 46% að raunvirði á milli áranna 2020–2021 en atvinnutekjur bara um 5%. 81% fjármagnstekna rann til efstu tekjutíundarinnar á árinu 2021. Það skýrir af hverju ráðstöfunartekjur efstu 10% landsmanna jukust þrefalt á við hin 90% landsmanna á árinu.

Nú er ég ekki talsmaður hárra skatta eða að það eigi að skattleggja allt í botn, það er gott að fólk nýtur fjármagnstekna og tekna af eignum sínum og sparifé. En varðandi skattlagningu á fjármagnstekjum og að allir leggi sitt af mörkum til samfélagsins, líka efsta tekjutíundin — hver er afstaða hennar flokks til þess að hluti fjármagnstekna verði skattlagður á sama hátt og aðrar tekjur, það sem rennur til efstu tekjutíundarinnar og þeirra sem lifa eingöngu á fjármagnstekjum, svo að það renni í sameiginlega sjóði landsmanna.