Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:40]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að öllum sé ljóst að stefna okkar og öll framkvæmd í þessum málum er á þann veg að hér ríki jöfnuður, að það sé okkar skattastefna og að öll fjármálastefna ríkisins gangi út á að minnka ójöfnuð og auka jöfnuð í samfélaginu. Ég veit kannski ekki með beina afstöðu mína til einstakra þátta eins og þess þáttar sem hv. þingmaður nefnir. En svarið sem kom frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við umræddri fyrirspurn hv. þm. Loga Einarssonar er mjög skýrt um það að fyrirkomulagið í kerfinu eykur ójöfnuð. Við erum með hvata í kerfinu sem verða til þess að ákveðinn hópur auðgast meira og meira. Það hlýtur alltaf að vera á kostnað annarra þar sem gæðin eru almennt takmörkuð. Það sem mér finnst líka svolítið vanta almennt inn í umræðu á Íslandi um efnahagsmál yfir höfuð er þessi breytta hugmyndafræði í ljósi breyttra tíma. Við getum ekki lengur hugsað allt út frá meiri hagvexti, meiri neyslu, auknum lífsgæðum, allt þetta, auknum lífsgæðum fyrir fólk sem hefur frábær lífsgæði, heldur út frá lífsgæðum sem eru þannig að allt fólk í samfélaginu geti lifað góðu og áhyggjulausu lífi.

Það er alltaf gaman að heyra fólk sem á mikið af peningum segja að það hafi ekki áhuga á peningum. Mér finnst ég búa við mikil forréttindi þegar ég segi að ég hafi engan áhuga á peningum í mínu lífi. Það er fullt af fólki sem hefur engan áhuga á peningum en hefur engin tök á að hugsa um neitt annað daginn út og daginn inn og þegar staðan er sú er eitthvað að í okkar samfélagi og þetta sem hv. þingmaður nefnir, það er sannarlega ýmislegt sem bendir til þess að það sé stór þáttur í því að skapa þær aðstæður. Já, ég held að ég sé sammála þingmanninum þar.