Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið; það er áhugavert svar að þeir sem eiga nóg af peningum hafi ekki áhuga á þeim. Kannski eru það einungis þeir fátæku sem hafa gríðarlegan áhuga á peningum og áhyggjur af skorti á þeim, þeir vita hversu mikilvægir þeir eru til að hafa lífsviðurværi. Mér heyrist hv. þingmaður vera á sömu nótum og við í Flokki fólksins hvað varðar fjármagnstekjuskatt og að það ríki lágmarksjöfnuður og allir borgi sinn skerf til samfélagsins.

Hv. þingmaður minntist undir lok ræðu sinnar á söluna á Íslandsbanka og ég heyrði líka andsvör hv. þm. Jakobs Frímanns Magnússonar hvað það varðar, sem mér fannst athyglisverð umræða. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra tvívegis selt hlut ríkisins í Íslandsbanka á undirverði. Fyrst með almennu útboði og nú síðast með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi þar sem ákveðnir aðilar gátu skráð sig sem hæfa fjárfesta með lítilli fyrirhöfn, keypt bréf með afslætti og selt um hæl með miklum hagnaði. Að mínu mati réð íslenska klíkufúsksamfélagið enn eina ferðina í því. Það er ástæðan fyrir hruninu, tel ég vera. Það var ekki að bankamenn væru svo vitlausir — jú, jú þeir voru kannski vitlausir, en það var fúskið; fúsk eins og það sem við sáum í kringum Íslandsbankasöluna og sem við sjáum líka í máli ÍL-sjóðs sem verður enn stærri reikningur. Við töpuðum nokkrum milljörðum við söluna á Íslandsbanka, þar sem við seldum á 117 á hlut en ekki 122 kr., sem 120% eftirspurn var eftir, burtséð frá öllu hinu ruglinu. Söluaðilar vissu ekki hver raunverulegur eigandi var.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, ég hef bara tvær mínútur og sé að þær eru að verða búnar hér, hvort hv. þingmaður hafi kynnt sér lögfræðiálit Róberts Spanós, fyrrverandi forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, prófessors við Háskóla Íslands og gestaprófessors við Oxford-háskóla, varðandi það að ef fjármálaráðherra ætlar að reyna að bæta fyrir fúskið 2004 —(Forseti hringir.) hvort hv. þingmaður hafi kynnt sér það og hvort henni finnist að ef hæstv. fjármálaráðherra komi með frumvarp til Alþingis, um að slíta ÍL-sjóði, sé það eignarnám eða ekki.