153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:45]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir samtalið hér. Það hringja margar viðvörunarbjöllur í tengslum við öll þau mál sem hv. þingmaður nefnir. Viðhorf ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans hér á þingi, gagnvart stjórnskipulegu gildi þess sem við erum að gera hér, er ekki til þess að lækka í þeim viðvörunarbjöllum. Það ber allt of mikið á því að fólk sé reiðubúið til að líta fram hjá möguleikunum á því að það sem við erum að gera hér brjóti hreinlega gegn stjórnarskrá. Við erum að fá dóma sem segja að Alþingi sinni ekki þeirri stjórnskipulegu skyldu sinni að tryggja að löggjöf sem það samþykkir sé í samræmi við stjórnarskrá sem hlýtur að vera grundvallarforsenda þess að mál séu afgreidd út úr þessum þingsal. Það hefur komið mér á óvart hversu mikið er litið á þá kröfu, sem við erum með mjög skýra, sem einhverja sérvisku og eitthvert vesen. Það er bara beinlínis talað eins og að við megum ekkert vera að því að sinna því. Það sama á við um aðgerðir ríkisstjórnarinnar og það sem hv. þingmaður nefnir. Við erum að tala um ÍL-sjóðinn og líka þessa bankasölu. Þarna eru mjög skýr merki um að það sé verið að gera hluti sem gætu gert ríkið skaðabótaskylt upp á miklu hærri upphæð en fæst af þessum framkvæmdum. Við höfum áður lent í því að fá í andlitið afleiðingarnar af þeirri hagstjórn — og hv. þingmaður orðaði þetta vel, talaði um klíkufúsksamfélag sem við værum búin að byggja upp. Það er vel valið orð hjá þingmanninum. Það er það sem við erum að sjá í sölunni á Íslandsbanka, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað þá bera salan þess merki. Auðvitað þurfum við að fara ofan í saumana á því áður en við lendum aftur í sama rugli (Forseti hringir.) og við gerðum þegar allt efnahagskerfið hrundi á einni nóttu.