Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talaði um í ræðu sinni að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hafa lofað hinu og þessu. Það var sent bréf til aldraðra árið 2013. Í ræðu talaði núverandi hæstv. forsætisráðherra um að sumir mættu ekki bíða eftir réttlætinu og ýmislegt svoleiðis og hérna er verið að reyna að telja upp í einhverjum ræðum stjórnarliða að það hafi nú verið einhverjar framfarir hér og þar. En við sjáum aldrei markmiðið. Þau eru aldrei tilbúin til að segja okkur hvert sé verið að stefna því án þess að segja það þá skiljum við ekki heldur skrefin í áttina að því. Væri ekki mjög eðlilegt, bara fyrst við erum að tala um fjárlög og lög um opinber fjármál, að tala um stefnumörkun stjórnvalda og þá til eigi skemmri tíma en fimm ára? Ég sé það alla vega ekki í fjármálaáætlun hvert lokamarkmiðið hjá ríkisstjórninni er, t.d. varðandi hverjar ráðstöfunartekjur aldraðra og öryrkja eiga að vera. Væri það ekki mjög augljóst, að hafa svona markmið sem væri hægt að fá samanburð með tilliti til laga um opinber fjármál? Og fyrst að stjórnvöld eru ekki að setja það fram sem stefnu sína, hvað eigum við þá að halda þegar kemur einhver smá breyting hér og smá breyting þar? Það er líka talað um heildarendurskoðun en það er alltaf verið að vinna í einhverjum þrepum án þess að við sjáum einmitt hvert heildarmarkmiðið er í öllu þessu. Er það ekki bara einfaldlega mjög óheiðarlegt að leggja ekki á borðið hvað í alvörunni þau vilja gera og geta þá útskýrt af hverju þau taka þetta skref núna og annað skref næst og hvar þau ætla að enda?