Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Þetta er allt vísvitandi og viljandi gert. Við sjáum fjármálaráðherra koma hvað eftir annað í ræðustól og segja: Skoðið Tekjutíðindin, við höfum aldrei sett meira í þetta og það eru 100 milljarðar sem eru komnir í kerfið. Sjáum við í fjárlögum hvað kemur mikið í skerðingar? Getum við áttað okkur á því hvað kemur mikið til baka, eða hvað ríkið sparar sér mikið á því að búa til skerðingarkerfið? Nei. Við sjáum þetta hvergi inni og þess vegna sagði ég ríkisstjórn eftir ríkisstjórn. Ég man nefnilega þegar vinstri stjórnin var hér við völd þá var ég nú bara hérna fyrir utan að mótmæla og ég man að þá voru bætur almannatrygginga skertar eftir bankahrunið um 10% með einu pennastriki. Við vorum auðvitað ekkert sátt við það vegna þess að þarna var verið að ráðast á öryrkja. En þá var sett inn sérstaka uppbótin og þá var líka lofað, statt og stöðugt, að fyrsta verk ríkisstjórnarinnar þegar betur áraði væri að skila 10% og taka á málefnum öryrkja og hækka þá. Það var aldrei gert. Það fengu allir hækkanir, meira að segja þingmenn og ráðherrar og allir. Allt leiðrétt nema almannatryggingakerfið. Þetta er það sem ég hef alltaf sagt: Þeir vita nákvæmlega hvað þeir eru með í höndunum að því leyti til. Þess vegna hafa þeir byggt upp þetta kerfi og reyna að verja þetta kerfi vegna þess að þeir vita það — og ég er alveg sannfærður um að þetta er úthugsað. Það skiptir engu máli hvað þeir setja inn í kerfið, meðan það er svona fá þeir stærsta hlutann af því gegnum streymið beint aftur og þess vegna vilja þeir hafa þetta kerfi og viðhalda því. Ég hef enga trú, því miður, á að það verði endurskoðuð af einhverju viti.