Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er einmitt með tölurnar hjá mér um hvernig þetta þróaðist við hrunið. Árið 2008 var verðbólga 12,42%, örorkulífeyririnn hækkaði um 3,5%, allt í lagi. Ári seinna var brugðist svolítið við þessari verðbólguaukningu og það varð 13,98% hækkun á örorkulífeyrinum. Frábært, en verðbólgan var 11,99%, þannig að þau voru þarna aðeins eftir á. Svo kemur 2010, 0%, 2011, 0%. Það er brugðist við því með að gefa þessi 10% aftur 2012 og þá kom 11,88% hækkun. Þá er þessum 10% skilað en á meðan hefur verið verðbólga. Á heildina litið var rýrnun miðað við verðbólgu, meira að segja. Það er vissulega hægt að segja að það hafi einmitt verið brugðist við aðstæðum að mínu mati á rangan hátt. Þú átt ekki að skerða grunninn, gólfið á að vera öruggt. Þú átt að taka skerðingar og aðhaldið annars staðar frá, þar sem fitan er en ekki þar sem beinið er. Sagan í gegnum þessar hækkanir á örorkulífeyri með tilliti til launaþróunar og verðbólgu er í rauninni vanefndirnar þar miðað við bara lagatextann, alla vega miðað við anda lagatextans en ekki stranga lagatæknilega túlkun. Við erum búin að koma okkur í þá stöðu sem við erum með núna sem er að það er um 60% gat milli launaþróunar og núverandi stöðu örorkulífeyris.