Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Þetta er nefnilega einmitt málið. Þessi leikur — það stendur að það eigi að miða við launaþróun, annars vístöluna, það sem er hagkvæmara á hverjum tíma. Launavísitalan hefur aldeilis verið hagkvæm. Síðan er þessi brella, maður hefur á tilfinningunni að þeir reyni einhvern veginn alltaf að borga minna en þeir eiga að gera. Þeir búa til einhverjar reiknireglur með reiknikúnstum til að ná niður greiðslum til lífeyrisþega, þessi 3% sem voru greidd í sumar og svo 6% sem þeir ætla að greiða og 9% — þeir hanga ekki einu sinni í verðbólgunni í sjálfu sér og allra síst ef við tökum inn þessar gífurlegu hækkanir sem hafa orðið á húsaleigu, þá er himinn og haf þarna á milli. Það er líka annað sem ég varð alltaf foxillur út í á sínum tíma — jú, það var gott og það var góðmennska þar á bak við að taka inn búsetuskerðingar og setja á ellilífeyri. Ég var sáttur við það. En síðan kom einhver fáránleg krafa, ég man ekki hvort það var verkalýðshreyfingin eða einhver sem talaði um að það gengi ekki, það yrði að vera 10% minna en lægsti ellilífeyrir. Ég gat ekki skilið það. Einhver á lægsta ellilífeyri getur ekki haft 10% minna vegna þess að hann er í fátæktargildru með venjulegan ellilífeyri sem er í lægsta flokki. Maður hefði haldið að 10% hefðu dugað. Nei, þá ákveða þeir að setja krónu á móti krónu skerðingu á þennan hóp líka. Það er einhver innbyggður brotavilji gagnvart ákveðnum hópum og að gera kerfið nógu flókið. Það er þess vegna sem maður treysti þeim ekki. Maður er gjörsamlega hættur að trúa því að þeir vinni að þessu af heilindum (Forseti hringir.) vegna þess að ef þeir væru að endurskoða þetta kerfi af heilindum þá myndu þeir henda þessu kerfi, bara algjörlega. Ekki endurskoða það heldur henda því og byggja nýtt.