Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:09]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir góða ræðu, hann stiklaði á mörgu stóru í ræðu sinni. En í ljósi þess að við vorum að ræða hér eingreiðslu til öryrkja í morgun og við erum að ræða fjárlögin núna þá langar mig aðeins að fara út í fréttir síðustu daga varðandi hækkun á leigu hjá leigufélaginu Ölmu og þessar ömurlegu fréttir sem þar komu í ljós. Ég veit að Flokkur fólksins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson lætur þessi málefni sig varða mjög mikið. Þess vegna var ég líka að pæla: Er eitthvað sem við hér á Alþingi hefðum getað gert betur til að koma í veg fyrir að þetta myndi eiga sér stað? Þurfum við kannski að vera duglegri við að setja pressu á að byggja upp félagslegt húsnæði og félagsíbúðir þannig að fólk þurfi ekki að leita til þessara leigufélaga og eiga á hættu að leigan verði hækkuð um fjórðung, minnir mig að sé, eftir áramót? Þetta er galin hækkun. Hvernig á einhver manneskja að standa undir þessu? Við vitum öll hvernig framfærsla öryrkja er. Nú er ég á þingi en þegar ég er ekki inni á þingi þá er ég bara almennur stúdent og er á námslánum og þá get ég ekki borgað leiguna mína með þeim námslánum sem ég fæ, ég get ekki framfleytt mér. Ég er að pæla hvort það sé eitthvað sem við hefðum getað gert betur, hvort við getum dregið einhver lærdóm af þessu sem hefur gerst og hvort það sé mögulega eitthvað sem við gætum tekið upp í fjárlögum.