Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og jú, við gætum það alveg örugglega. Það sem er kannski sorglegast við þá staðreynd sem ég er að fá upplýsingar um, eins og ég benti á í morgun, er að konan sem er öryrki og býr í hjólhýsi í Laugardalnum fær ekki heimilisuppbót af því það er ekki talið heimili hennar, hún hefur ekki lögheimili. Hún hefur ekki lögheimili vegna þess að kerfið gefur henni ekki nægilega mikla framfærslu til að leigja sér húsnæði. Þannig að kerfið er að refsa henni fyrir það hvernig kerfið kemur fram við hana. Þú ferð ekki einu sinni svona með fanga, þá yrði allt brjálað. Hvers vegna í ósköpunum getum við leyft okkur að koma svona fram við ákveðna einstaklinga eins og þeir séu bara núll og nix í þjóðfélaginu? Bara einskis virði. Eins og með þetta leigufélag, 75.000 kr. hækkun. Þarna er einstaklingur sem er með 65.000 kr. eftir þegar hún er búin að borga 250.000 kr. leigu, sem mér finnst mjög há leiga. Hún á 65.000 kr. eftir en nú á hún að borga 75.000 kr. hækkun. Hún er sett í gjörsamlega vonlausa aðstöðu. Hún hefur enga möguleika á að borga þetta. Að þetta skuli vera hægt og að viðkomandi leigufélag komi í fjölmiðla og ver sig með því að þeir neyðist til þess að hækka — þetta leigufélag veit ekki hvað neyð er. Þarna eru einstaklingar sem mér skilst að séu með um 80 milljónir á mánuði í laun. Ég meina neyð, ég veit ekki hvort það sé vegna þess að þeir séu gjörsamlega að springa úr græðgi og neyðist þess vegna til þess. Ég bara næ ekki hvernig er hægt yfir höfuð að koma svona fram við fólk og þetta er ekki það eina, það er verið að gera þetta um allt kerfið. Það er verið að níðast á fólki og stilla því þannig upp að það á ekki fyrir mat eða lyfjum.