Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:14]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir svarið við andsvarinu mínu og ég ætla að fá að taka undir allt sem kom fram í svari hv. þingmanns. Þetta er gjörsamlega vonlaus staða sem við erum að setja fólk í. Mér fannst líka svolítið fyndið þegar við vorum að ræða þessa eingreiðslu í morgun sem öryrkjar fá, fólk sem er að þiggja endurhæfingarlífeyri, að það er eins og við séum að gera eitthvað geðveikt gott sem það er að vissu leyti, en eins og ég kom inn á í ræðu minni, þá erum við alltaf að gera þetta í einhverju kapphlaupi rétt fyrir áramót og svo kemur klapp á bakið: Já, þarna björguðum við þeim svo sannarlega. Þess vegna kom ég líka inn á breytingartillögu Flokks fólksins í ræðunni minni um almannatryggingar. Mér þykir bara leiðinleg sú menning sem hefur skapast hér að fella tillögur minni hlutans og ég vona að þetta verði samþykkt af því að gott er gott, alveg sama hvaðan það kemur. Það að verið sé að endurskoða þetta almannatryggingakerfi í heild sinni þýðir ekki að það megi ekki taka lítil skref til að byrja með. Þessar fréttir síðustu daga slógu mig virkilega út af laginu vegna þess að þetta er eitthvað sem er á okkar ábyrgð hér, ábyrgð löggjafans. Við erum ekki búin að móta lögin og regluverkið nógu vel og við erum að skilja eftir eitthvert tómarúm þar sem fólk getur bara fallið á milli kerfa og endað síðan á því að vera mögulega heimilislaust. Við erum ekki með eitthvert kerfi sem grípur það endilega. Við erum alltaf að tala um að við séum velferðarríki. Erum við virkilega velferðarríki? Það er til fólk sem er í neyð, líka rétt fyrir jól. Ég bara átta mig ekki á því og ég held, miðað við hin Norðurlöndin, að við gætum verið komin svo miklu, miklu lengra í þessum málefnum.