Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, við stærum okkur af því og þykjumst vera velferðarríki en við erum það ekki fyrir alla. Því miður. Við erum með fólk sem er ekki inni í þessu kerfi. Við erum ekki bara með fólk sem er komið í hjólhýsi í Laugardalnum. Við erum komin með fólk sem sefur í bílum og svo erum við með fólk sem er á götunni. Við vitum það miðað við veðurfar hérna að fólk getur ekki lifað á Íslandi nema að hafa þak yfir höfuðið og það er okkur auðvitað alveg til háborinnar skammar að við skulum leyfa okkur þetta. Þessi 60.300 kr. eingreiðsla er frábær en í samhengi er hún bara lenging á ákveðinni sultaról. Ef við værum og vildum virkilega gera vel þá værum við að greiða 60.300 kr. í hverjum einasta mánuði, eins og ég sagði í morgun. Það yrði líka eftir áramót og áfram. Ef við værum að gera virkilega rétt og vel þá fengi þetta fólk 120.000 kr. Það væri samt ekkert allt of mikið. Við sjáum það að ef konan sem flosnaði upp úr leigunni hjá Ölmu hefði fengið 60.000 kr. í viðbót þá hefði hún getað hangið í leigunni en haft 10.000 kr. minna til að framfleyta sér. Spáið í það. Þá erum við ekki að tala um eingreiðslu heldur greiðslu í hverjum einasta mánuði. Ef hún hefði fengið 60.000 kr. til viðbótar þá væri hún komin í 110.000 kr. Hvernig haldið þið að líf hennar myndi breytast? Hún fær leigu núna rétt undir 200.000 kr. þannig að hún ætti 50.000 kr., en hún er að fara út á land, hún er að flýja, þetta eru hálfgerðir hreppaflutningar, vegna hennar fjárhagslegu stöðu.