Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna sem hann flutti af miklum tilfinningaþunga undir lokin, svo að því sé haldið til haga. Mig langar að spyrja hv. þingmann varðandi breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar vegna nýrrar spár Hagstofu Íslands og vegna breytinga á áætlun um tekjustofna. Nú er hann reyndur í fjárlaganefnd, búinn að vera þar í mörg ár. Ég er á öðrum vetri í nefndinni og vil þakka honum fyrir gott samstarf og skemmtilegt. Þessar breytingartillögur sem eru að koma fram frá fjármálaráðuneytinu, er það ekki nýlunda að svona miklar breytingar séu að koma fram og svona seint? Sýnir það ekki að upphaflega frumvarpið hafi eiginlega verið hálfkarað skjal og undirbúningur undir það frumvarp hafi ekki verið nægjanlegur?

Nú kom fréttatilkynning í gær frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu og í henni segir að við 2. umr. fjárlaga verði lögð fram tillaga um 100 millj. kr. í Kvikmyndasjóð. Hvernig má það vera? Það skjal finnst ekki í húsinu og ekki er vitað til þess að það hafi verið lögð fram tillaga. Hvernig getur það verið að það sé verið að leggja fram tillögu núna til breytinga á fjárlögum svo seint í ferlinu af hálfu meiri hlutans?

Að lokum langar mig að spyrja varðandi 62. gr. stjórnarskrárinnar og ég mun líka gera það í seinna andsvari. Hv. þingmaður nefndi að það ætti ekki að styrkja og vernda þjóðkirkjuna og sagði jafnvel að það væri nóg að styrkja Biskupsstofu. Gæti hann kannski aðeins fjallað nánar um skilning sinn á þessu ákvæði.