Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Byrjum á breytingartillögunum: Það kemur alltaf endurskoðuð áætlun miðað við nýja hagspá og það er alveg klassískt að frumvarpið taki breytingum með tilliti til reiknaðra stærða. Það er ekkert flókið við það, ný spá um verðbólgu og alls konar svoleiðis, það eru bara formlegheit að endurreikna frumvarpið með tilliti til þess. Það er dágóður hluti af þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn gerir, það eru þarna 37 milljarðar vegna vaxtagjalda og ýmislegt svoleiðis. Að öðru leyti eru miklu stærri breytingar en við bjuggumst við. Við bjuggumst við að það væri eins og t.d. varðandi heilbrigðisútgjöldin — 4 milljarðar vegna lyfja sem var bara vanáætlun, það var ekki eitthvað sem var í raun búist við. Það gefur okkur vísbendingu um að frumvarpið í haust hafi bara verið skelin af því sem það átti að vera, það var ekki búið að taka ákvarðanir um heilan helling. Almennt séð bjuggumst við við því að það fjármagn sem hafði verið sett í varasjóðinn til að dekka húsnæðiskostnað og möguleika á kjarasamningum, að það yrði bara millifærslur þar á milli, það myndi ekki hækka. Það er að hækka um 54 milljarða í heild sinni, það er rosalega stór baggi, það er óvenjulegt. Kvikmyndasjóður, þetta hefur gerst áður og ég hef spurt um þetta áður. Það kemur tilkynning frá ráðuneytinu um einhverja upphæð, sem ég klóra mér í hausnum yfir, og ég sé að þetta er hvergi í breytingartillögum. Þá er ráðuneytið bara að krafsa í ýmis verkefni hjá sér til að búa þetta til sem fjárheimild að einhverju leyti. sem mér finnst vera rosalega öfugsnúið. Við í minni hlutanum sendum beiðni á fjárlaganefnd til að útskýra þetta betur því að þetta kemur á svo röngum tíma. Af hverju ætti ráðuneytið að vera með einhverjar 150 milljónir aukalega sem hefur verið skrapað til að hækka fjárheimildina í Kvikmyndasjóð? Ég skil þetta ekki alveg.