Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, þetta með breytingartillögurnar — ég er sammála því að hluti er klárlega út af spá Hagstofu Íslands, uppfærslu á henni og er í samræmi við hana og verðbólguspá og líka auknar tekjur. Mér fannst áhugavert með auknu tekjurnar, að þær væru miklu meiri en búist hafði verið við, sem er bara mjög gott, besta mál. Ef ég man rétt voru líka 4 milljarðar vegna lyfjamála og svo 2 milljarðar til sjúkrahúsþjónustu og 750 milljónir til liðskiptaaðgerða — mér finnst mjög sérstakt að vera að koma með þetta eins og það hafi breyst eitthvað frá því að það var upphaflega lagt fram þar til þessi breytingartillaga varð til, t.d. vegna heilbrigðismála og lyfjamála og liðskiptaaðgerða. Það ber vott um að þetta hafi ekki verið íhugað í byrjun, þannig að það liggi fyrir.

Varðandi Kvikmyndasjóðinn, 100 milljónir, er Flokkur fólksins með breytingartillögu, þ.e. að 290 milljónir fari til Kvikmyndasjóðs sem verði teknar af peningum til RÚV. Ég er á þeirri skoðun að mjög líklegt sé að þetta sé færsla innan málefnasviða hjá ráðuneytinu þannig að það komi ekki breytingartillaga hér fyrir Alþingi. En ég er alveg með það á hreinu að ekki verður hægt að taka þessa peninga úr varasjóðnum vegna þess að það segir í lok 24. gr. laga um opinber fjármál, um varasjóðinn, að reyna þurfi að ná í fjármuni með öðrum hætti, að aðrar aðferðir þurfi að reyna áður, með sparnaði annars staðar og annað slíkt. En ég hefði talið að ráðherra þyrfti að útskýra það fyrir fjárlaganefnd hvar hann er að fá þessar 100 milljónir, hvar á að skera niður.

Varðandi 62. gr. stjórnarskrárinnar þá finnst mér málflutningur hv. þingmanns svolítið bera þess merki að hann sé ósáttur við það stjórnarskrárákvæði að ríkinu beri að styrkja og vernda þjóðkirkjuna. Ég er á þeirri skoðun að við eigum að gera það í samræmi við stjórnarskrána, bæði með sóknargjöldum og líka að styrkja þjóðkirkjuna varðandi presta og ekki bara Biskupsstofu. Kirkjujarðasamkomulagið ber þess merki að það er hluti af 62. gr. En það væri gott að fá að heyra álit hans. (Forseti hringir.) Við þurfum alla vega að virða stjórnarskrána, hvort sem við erum sátt við ákvæðin eða ekki. Ég vona að hv. þingmaður geri það líka.