Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég náði ekki að fara yfir 62. gr., klárum aðeins Kvikmyndasjóðinn. Mér finnst rosalega undarlegt að núna, áður en fjárlög eru samþykkt, sé ráðherra að toga til fjármagn einhvers staðar frá, úr einhverjum fjárheimildum fyrir ýmis verkefni eða eitthvað svoleiðis, til að búa til heildarfjárheimildir fyrir Kvikmyndasjóð upp á 250 milljónir í viðbót, í staðinn fyrir að það sé bara fjárheimild upp á 250 milljónir og þá mínusist sérstaklega úr þessum ýmsu verkefnum. Mér finnst það bara pínu vandræðalegt að ráðherra fái svona miklar fjárheimildir til að sinna ýmsum geðþóttaverkefnum þegar allt kemur til alls.

Varðandi 62. gr. þá eru sóknargjöldin ekkert nauðsynlegur hluti til að uppfylla þá grein. Lífsskoðunarfélög eru fullfær um að innheimta eigin aðildargjöld og geta þá stillt þeim í það hóf sem þau telja að virki fyrir sína sóknarmeðlimi í staðinn fyrir, eins og það er núna, að ríkið ákveði að það sé sama félagsgjald fyrir öll lífsskoðunarfélög, sem mér finnst ekkert rosalega fínt. Það er einnig alveg hárrétt, sem hv. þingmaður segir, og mér finnst líka, að kirkjujarðasamkomulagið virkar á þann hátt að einhver hluti þess er í þessu viðbótarsamkomulagi. Hér er eitthvert peningauppgjör í því hvað ríkisstjórnin telur vera að styðja þjóðkirkjuna. En hversu stór hluti af samningnum er það? Hversu stór hluti af samningnum fer í að styðja og styrkja kirkjuna og hversu stór hluti fer í að borga upp þessar eignir? Við höfum ekki hugmynd um það. Það er bara mjög óheiðarlegt, verð ég að segja. Að grunni til myndi ég segja að stjórnarskrárákvæðið um að styðja og styrkja þjóðkirkjuna — það er bara okkar túlkun að skilja það og frá mínum bæjardyrum séð þá get ég sagt að það sé hægt að halda úti biskupsembætti. Ég er búinn að tékka í boxið, ég styð og styrki þessa þjóðkirkju þrátt fyrir að það sé trúfrelsi.