Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:54]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir þessa ræðu og fyrir að taka upp umræðuna um verðtrygginguna og hversu skaðleg hún er fyrir efnahaginn og sérstaklega fyrir fólk og fyrir heimilin. Hún gerir það að fólk vilji koma sér upp þaki yfir höfuðið að í rauninni nauðsynlegri áhættufjárfestingu, venjulegt fólk sem hefur engan áhuga á því að taka þátt í einhverjum áhættufjárfestingarbransa. Það sem hefur hins vegar verið sagt í umræðunni gegn þessum sjónarmiðum hv. þingmanns og er spurningin sem mig langar til að beina til hennar snýr að því að nú hefur fólk valmöguleika, hefur val um að taka lán sem eru ekki verðtryggð eða lán sem eru verðtryggð. Sannarlega er gríðarlega mikill munur á greiðslubyrði af þessum lánum sem má segja að geri það að verkum að fólk eigi ekki raunhæfra kosta völ. En spurningin sem mig langar kannski til að beina til þingmannsins er: Telur þingmaðurinn ekki nóg að óverðtryggð lán séu í boði líka? Með því hafi fólk þetta „val“, ég leyfi mér að setja það innan gæsalappa. Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að ef verðtrygging lána yrði hreinlega bönnuð myndi það raunverulega leiða til þess að fólk hefði valkosti á fasteignamarkaði. Við sjáum í dag þegar vextir eru orðnir eins og þeir eru að fólk sem tók óverðtryggð lán áður er jafnvel farið að færa sig yfir í verðtryggð lán aftur vegna þess að það ræður ekki við greiðslubyrðina og fólk sem er að kaupa sína fyrstu eign er, held ég, mun oftar farið að þiggja þessi mjög óhagstæðu verðtryggðu lán í staðinn fyrir hin, einfaldlega vegna þess að það ræður ekki við greiðslubyrðina.