Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:59]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ástríði Lóu Þórsdóttur fyrir greinargott svar við spurningu minni og ég er henni hjartanlega sammála. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá held ég að þegar við erum að taka ákvarðanir og skipuleggja svona hluti hér þá séum við í fyrsta lagi alltaf að horfa til of skamms tíma og við erum allt of lítið að hugsa um fólkið. Þarna erum við að tala um heimili og húsnæði. Við erum ekki að tala um fjárfestingu í fasteignum, þetta er ekki sami hluturinn.

Mér hefur í gegnum tíðina alltaf þótt svolítið erfitt að tala um verðtrygginguna við útlendinga sem spyrja mig hvernig lán virka hérna og í algerum minni hluta tilvika hefur mér tekist að útskýra fyrir fólki hvernig þetta virkar vegna þess að það skilur þetta ekki. Það trúir ekki því sem ég er að segja, telur sig vera að misskilja og skilur ekki það sem ég er að reyna að segja þegar ég er að útskýra þetta fyrir því: Já, það er alveg sama hvað ég borga og borga, lánið hækkar alltaf. Þau skilja þetta ekki og af hverju í ósköpunum þetta er svona. Ég er sammála hv. þingmanni að það sem er einna verst við þetta er vítahringurinn sem verður til. Ég er mjög spennt fyrir þeim hugmyndum sem hv. þingmaður hefur og aðrir um það hvernig við getum fundið aðrar lausnir. Ekki það að það eru til, eins og hv. þingmaður nefnir, aðrar lausnir og við vitum hverjar þær eru, það er ekki eins og þetta sé einhver algjör og fullkomin ráðgáta. Kannski er eina leiðin til að þvinga t.d. fjármálastofnanirnar til að hugsa í þeim lausnum að banna þeim hreinlega að nota þessa „lausn“, vegna þess að þetta er vissulega lausn fyrir fjármálastofnanir til að tryggja sig gagnvart áhættunni sem fylgir því að veita fólki lán í því efnahagsumhverfi sem við búum við. En það skortir hvata til þess að bæði finna aðrar lausnir og nota aðrar lausnir þegar þessi valmöguleiki er enn þá fyrir hendi þar sem þetta kemur kannski ágætlega út fyrir fjármálastofnanir — en ekki fyrir heimilin.