Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:01]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska hv. þingmanni til hamingju með að hafa einhvern tímann getað fengið útlendinga til að skilja um hvað þetta snýst vegna þess að það er ekki vinnandi vegur í rauninni að fá fólk til að skilja þetta. Þetta er hvergi annars staðar til, þetta þekkist ekki. Það er, eins og hv. þingmaður sagði, ekki verið að hugsa um fólkið. Við erum líka að heyra, eins og t.d. í þessum svokölluðu lausnum sem núna eru uppi, að bæði fjármálaráðherra og seðlabankastjóri hafa í alvörunni talað um, og hafa gert mig svo reiða aftur og aftur, að það sé skjól í verðtryggingunni. Annaðhvort vita þeir ekki hvernig verðtryggingin er eða þeir eru að tala gegn betri vitund. Málið er að við erum alltaf, í staðinn fyrir að ráðast gegn sjúkdómnum sem er verðtryggingin og hennar afleiðingar, að reyna að lina sjúkdómseinkennin. Það gefur manni kannski bara smá hlé í smá tíma frá verkjum, ef ég nota þá líkingu, en læknar ekki og þetta er ekki lækning. Við getum orðað það þannig að á meðan ég tek töflu við höfuðverknum þá bara vex æxlið. Þannig að þetta er ekki gott og þetta er vítahringur. Varðandi aðrar lausnir og hvata fyrir fjármálafyrirtæki til að nýta sér aðrar lausnir þá er enginn hvati fyrir fjármálafyrirtækin vegna þess að þetta er gullgæsin þeirra. Fólk sem er núna að lenda í þessari gildru á eftir að lenda í stórkostlegum vandræðum, því miður, eftir einhver ár, kannski eftir tíu ár, ég veit það ekki nákvæmlega. En það gerist og þá er sennilega lausnin að fólk endurfjármagnar en þá endurfjármagnar það lánið með öllu því sem komið er á og fer sennilega aftur í verðtryggð lán af því að það ræður ekki við afborganir — þetta er algjör vítahringur og við verðum að stoppa.